Braut gegn nemendum og gaf þeim 10 í einkunn

AFP

Kennari í Brooklyn í New York misnotaði kvenkyns nemendur sína kynferðislega, bauð þeim í kynlífsklúbba og á nektarstrendur og gaf þeim svo 10 í einkunn.

Í frétt New York Times segir að málið hafi komist upp eftir að kennarinn sendi einum nemanda sinna kynferðislega ljósmynd í gegnum samskiptaforrit.

Í kjölfarið leitaði lögreglan á heimili hans, í síma og tölvum. Og sú leit skilaði árangri því þúsundir skilaboða fundust sem kennarinn hafði sent nemendum sínum. Mörg þeirra voru mjög óviðeigandi. Þá fannst einnig myndband af kennaranum að hafa mök við táningsstúlku.

Í fréttaskýringu New York Times segir að smám saman hafi komist upp um umfangsmikinn leik mannsins að nemendum sínum. Hann hafi vingast við stúlkurnar er þær voru á fyrsta ári og boðið þeim m.a. áfengi og tóbak. Þá tók hann við að senda þeim myndir af sér, bjóða þeim heim, einni bauð hann á nektarströnd og öðrum í kynlífsklúbba. Hann nauðgaði einni þeirra er hún var átján ára, samkvæmt upplýsingum saksóknarans.

Í gær var kennaranum, sem er 44 ára, birt ákæran sem er í 36 liðum og snertir sex unglingsstúlkur. Hann er m.a. ákærður fyrir kynferðislega misnotkun, mannrán og að stofna öryggi og heilsu barna í hættu.

Maðurinn neitar sök. Hann er enn í gæsluvarðhaldi og gæti átt yfir höfði sér 25 ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

 

 Stúlkurnar voru á aldrinum 13-19 ára er hann braut gegn þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert