Nemarnir voru ekki í fjöldagröfinni

Ríkissaksóknari í Mexíkó segir að lífsýni sem tekin hafi verið úr líkum í fjöldagröfinni sem fannst skammt frá Iguala sýni að kennaranemarnir sem hurfu í síðasta mánuði séu ekki grafnir þar.

Saksóknarinn, Jesus Murillo Karam, segir að frekari rannsóknir verði gerðar en fjórar fjöldagrafir hafa nýverið fundist á þessum slóðum.

Kennaranemarnir 43 hurfu fyrir þremur vikum en þeir höfðu tekið þátt í mótmælum í Iguala. Alls hafa 50 verið handteknir í tengslum við hvarf nemanna, þar á meðal 14 lögreglumenn sem eru sakaðir um að hafa framselt unga fólkið til eiturlyfjabaróna. Talið er að lögreglan á þessum slóðum hafi starfað náið með glæpagenginu Guerreros Unidos, að því er segir í frétt BBC.

Í gær greindi lögregla frá því að leiðtogi glæpahópsins, Benjamin Mondragon, hafi framið sjálfsvíg þegar átti að handtaka hann í Morelos ríki í aðgerð öryggissveita mexíkósku lögreglunnar.

Unga fólkið nam við kennaraháskóla í Iguala en skólinn er þekktur sem vígi vinstrimanna. Ekki liggur fyrir hvort það séu pólitískar ástæður fyrir því að þeim var rænt. Þeir hurfu í kjölfar þess að átök brutust út á milli þeirra og lögreglunnar þann 26. september sl. Sex létust í átökunum en vitni að átökunum segja að í kjölfarið hafi nemendunum verið troðið inn í lögreglubíla og ekið á brott með þá.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert