Hundruð látið lífið í Kobane

Kúrdar verjast enn í bænum Kobane í Sýrlandi skammt frá landamærunum að Tyrklandi en vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams hafa í rúman mánuð reynt að ná bænum á sitt vald. Samhliða vörn Kúrda hafa herflugvélar frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum gert fjölda loftárása á sveitir samtakanna og valdið miklu mannfalli í röðum þeirra.

Fram kemur í frétt AFP að bandaríska varnarmálaráðuneytið hafi engu að síður varað við því að varnir Kúrda og loftárásir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra væru hugsanlega ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að bærinn félli í hendur Ríkis íslams. Kúrdar hafa kallað eftir aukinni hjálp við að verjast vígamönnum samtakanna. Gerðar hafa verið hátt í eitt hundrað loftárásir á sveitir Ríkis íslams í Kobane og nágrenni síðan 27. september.

„Við þurfum fleiri loftárásir sem og vopn og skotfæri til að berjast við þá á jörðu niðri,“ er haft eftir Idris Nassen, kúrdískum embættismanni í Kobane. Flestir íbúar bæjarins hafa þegar flúið hann og leitað skjóls í Tyrklandi eða um 200 þúsund manns að talið er. Talið er að hátt í fjögur hundruð vígamenn Ríkis íslams hafi fallið í átökunum og um 268 hermenn Kúrda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert