Hundrað ábendingar vegna leitarinnar

Frá leitinni að erlenda kafbátinum í sænska skerjagarðinum í gær.
Frá leitinni að erlenda kafbátinum í sænska skerjagarðinum í gær. AFP

Herinn heldur áfram leitinni að erlendum kafbáti í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm í dag. Þetta er sjötti dagur leitarinnar og hefur ekki verið ákveðið að draga úr henni.

Rúmlega hundrað manns hafa haft samband við herinn með upplýsingar eða vísbendingar.

Jörgen Elfving, yfirmaður í sænska hernum, segir í samtali við sænska ríkissjónvarpið að rétt sé að halda áfram aðgerðinni, jafnvel þó að svo fari að ekkert finnist.

„Þetta er aðgerð sem tekur tíma,“ segir Elfving. Hann bætir við að þetta sé verkefni sem reyni á þolinmæði þeirra sem taka þátt í því, leitin að erlenda kafbátinum sé líkt og leit að nál í heystakki.

„Nóttin hefur verið róleg,“ sagði Stefan Åsberg, fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins, í morgun, en hann fylgdist með leitinni í nótt. Hann segir að herinn hafi fylgst með nokkrum stöðum í nótt, hlustað og vaktað.

Stefan segir greinilegt að um aðgerð á vegum hersins að ræða. Skip hersins stingi svo sannarlega í stúf í skerjagarðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert