Viðurkennir að hafa látið myrða eiginmanninn

Frá Sanur á Balí þar sem hjónin bjuggu
Frá Sanur á Balí þar sem hjónin bjuggu AFP

Eiginkona Breta, sem fannst skorinn á háls í skurði á indónesísku eyjunni Bali, hefur játað að hafa fengið mann til þess að myrða eiginmanninn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Balí var Robert Ellis, 60 ára, myrtur að ósk indónesískrar eiginkonu hans. Er talið að hún hafi viljað komast yfir peninga hans en ósætti var á milli þeirra.

Lík Ellis fannst á þriðjudagsmorguninn í skurði en því hafði verið vafið inn í plast og teppi. Eiginkonan, Julaikah Noor Ellis, lét lögreglu vita skömmu eftir að líkið fannst að eiginmanns hennar væri saknað. En hún var fljótlega handtekin og yfirheyrð.

Að sögn yfirmanns rannsóknarinnar Wisnu Wardana, vöknuðu grunsemdir um að hún bæri ábyrgð á dauða eiginmannsins þegar vitni báru að erfiðleikar hafi verið í hjónabandi þeirra.

„Eftir að við ræddum við hana hægt og varlega í einhvern tíma játaði hún að lokum,“ hefur AFP fréttastofan eftir lögreglumanninum.

Hún var heima þegar Ellis var myrtur en í öðru herbergi. Það var unnusti húshjálparinnar sem sá um framkvæmdina en húshjálpin hefur staðfest að hann hafi myrt Ellis aðfararnótt mánudags.

Eiginkonan, tvær þjónustustúlkur og kærastinn eru nú í haldi lögreglu en fjórir vinir til viðbótar eru grunuð um að vera í vitorði með morðingjunum.

Í ágúst fannst lík bandarísks ferðamanns í ferðatösku fyrir utan hótel á Balí. Dóttir mannsins og unnusti hennar eru ákærð fyrir það morð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert