Skutu mann vopnaðan exi til bana

AFP

Lögreglan í New York skaut mann vopnaðan exi til bana í gær eftir að hann hjó tvo lögreglumenn með exinni er þeir höfðu stillt sér upp fyrir myndatöku í Queens-hverfinu.

New York Times hefur eftir William J. Bratton lögregluforingja að maðurinn hafi hæft annan lögreglumanninn í handlegginn en hinn í höfuðið með exinni.

Kúlur lögreglunnar hæfðu einnig 29 ára gamla konu í bakið en hún átti leið þar um á sama tíma. 

Samkvæmt NYT hefur lögregla ekki nafngreint manninn en hann lést af völdum sára sinna á staðnum. 

En CNN segir að maðurinn heiti Zale H. Thompson og sé á sakaskrá í Kaliforníu. Hann hafði verið rekinn úr hernum fyrir ósæmilega hegðun, samkvæmt heimildum CNN. 

Annar lögreglumannanna, Kenneth Healey, 25 ára nýliði í lögreglunni, er alvarlega slasaður en líðan hans er stöðug. Hann er með mjög alvarlega áverka á höfði. Hinn lögreglumaðurinn, sem einnig er nýliði í lögreglunni, Joseph Meeker, 24 ára, er mun minna slasaður og verður hann væntanlega útskrifaður af sjúkrahúsi í dag.

Konan sem varð fyrir skoti er ekki í lífshættu og er ástand hennar stöðugt en hún var strax send í aðgerð.

NYT segir að lögreglumennirnir hafi verið fjórir saman og stóðu þeir fyrir utan verslun á Jamaica Avenue um tvöleytið í gær, um klukkan 18 að íslenskum tíma. Vegfarandi bað um að fá að taka mynd af þeim og samþykktu þeir það. Á sama tíma kom maður klæddur grænum regnjakka að, tók fram exina, sem hann var með falda inni á sér, lyfti henni upp fyrir höfuðið og hjó henni í lögreglumennina án þess að segja orð við þá.

Hann hæfði fyrst Meeker í handlegginn en hélt áfram að höggva og hæfði þá hinn í höfuðið. Hinir lögreglumennirnir tveir tóku upp vopn sín og skutu árásarmanninn nokkrum skotum og drápu.

Ekki hefur verið útilokað að árásarmaðurinn tengist íslömskum öfgahreyfingum en samtökin SITE sem vakta starfsemi íslamskra öfgahreyfinga segja að Thompson hafi sett inn efni á YouTube og Facebook þar sem öfgafullar skoðanir komi fram. Bæði hvað varðar trúarbrögð og sögulega atburði. 

SITE segir að í september hafi hann sagt heilagt stríð réttlætanleg viðbrögð við aðgerðum síonista. Bratton hefur hins vegar ekki viljað staðfesta neitt um að hryðjuverk hafi verið að ræða. Allt of snemmt sé að tala um það að svo stöddu en spurningin var lögð fyrir hann skömmu eftir árásina, samkvæmt BBC.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert