Kveiktu í þinghúsinu

Mótmælendur í Búrkína Fasó hafa kveikt í þinghúsi landsins. Mótmælendurnir eru afar ósáttir við þá fyrirætlun að framlengja valdatíð Blaise Compaore, forseta landsins, en hann hefur þegar verið 27 ár við völd.

Einnig er búið að kveikja í ráðhúsinu í Ouagadougou sem og höfuðstöðvum stjórnarflokksins að sögn fréttamanns BBC.

Þá hafa borist fregnir af því að herinn hafi skotið á mótmælendur sem gerðu áhlaup á þinghúsið, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Þingið íhugaði að gera breytingar á stjórnarskrá landsins og gera Compaore kleift að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum á næsta ári. 

Hann komst til valda í kjölfar byltinga árið 1987. Síðan þá hefur hann staðið uppi sem sigurvegari í fjórum forsetakosninum, en þær hafa allar verið umdeildar. 

Stjórnarandstaðan hefur hvatt landsmenn til að óhlýðnast yfirvöldum og krefjast þess að Compaore stígi til hliðar á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert