Ofbeldisfullum glæpum fækkaði um 4,4%

Flest morð í Bandaríkjunum eru framin með skotvopni.
Flest morð í Bandaríkjunum eru framin með skotvopni. AFP

Ofbeldisfullum glæpum fækkaði um 4,4% í Bandaríkjunum á síðasta ári samkvæmt bandarísku alríkislögreglunni, sem segir þó að umfangsmeiri aðgerða sé þörf til að draga úr fjölda morða, nauðgana og vopnaðra rána í landinu.

Nærri 1,2 milljónir ofbeldisfullra glæpa voru framdar í Bandaríkjunum í fyrra, þeirra á meðal 14.196 morð, flest með skotvopnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegri skýrslu FBI um glæpi í Bandaríkjunum. Til samanburðar má nefna að árið 2012 voru 14.827 morð framin í landinu.

Nærri 80 þúsund nauðganir voru tilkynntar til lögregluyfirvalda.

Fleiri en 11 milljónir manna voru handteknir af lögreglu í Bandaríkjunum árið 2013, flestir vegna fíkniefnatengdra brota, þjófnaða eða fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þetta eru 1,2 milljón færri handtökur en árið á undan.

Eric Holder, dómsmálaráðherra, sagðist í gær fagna þróuninni en að gera þyrfti meira til að draga úr ofbeldisfullum glæpum í Bandaríkjunum.

Samkvæmt skýrslu FBI komu skotvopn við sögu í 69% morða og 40% þjófnaða í landinu en í 44 ríkjum er íbúum heimilt að bera skotvopn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert