Búnir að fá nóg af Breivik

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik AFP

Fangaverðir sem gæta fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik hafa fengið nóg af fanganum og þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að hann var fluttur frá Ila-fangelsinu yfir í Skien-fangelsið.

Breivik, sem myrti 77 á Utøya og í miðborg Óslóar hinn 22. júlí 2011, er sá fangi í Noregi sem býr við ströngustu gæsluna, samkvæmt frétt VG. Meðal öryggisráðstafana er að hann er fluttur án fyrirvara milli fangelsa að minnsta kosti einu sinni á ári. Þannig sé hægt að koma í veg fyrir að tengsl myndist á milli fangans og fangavarða. Eins til þess að koma í veg fyrir að Breivik geti undirbúið flótta úr fangelsi.

Breivik var árið 2012 fluttur frá Ila-fangelsinu í Skien-fangelsið og síðan til baka aftur. Opinbera skýringin er sú að það sé í öryggisskyni en samkvæmt heimildum VG er skýringin ekki síst sú að fangaverðirnir voru orðnir fullsaddir og útkeyrðir af því að þurfa að vera í návígi við Breivik.

Hann hafi ekki sýnt minnsta vott um iðrun, nú þremur árum eftir morðin, og eins virðist hann gjörsneyddur tilfinningum. Hann reynir að stjórna fangavörðunum og eins fái Breivik gríðarlegt magn bréfa frá fólki sem er jafnöfgafullt í skoðunum og hann. Það sé fangavörðunum nánast ofviða að þurfa að lesa það sem stendur í bréfunum.

Frétt VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert