Meinað að snúa aftur til Gaza

Palestínskar stúlkur leika sér í skólastofu í skóla á Gaza, …
Palestínskar stúlkur leika sér í skólastofu í skóla á Gaza, sem eyðilagðist í átökunum milli Ísrael og Hamas í sumar. AFP

Stjórnvöld í Ísrael hafa bannað norskum lækni að snúa aftur til Gaza en hann hefur sinnt sjúklingum á svæðinu í meira en áratug, m.a. á Shifa-sjúkrahúsinu í Gaza-borg sl. sumar, þegar aðgerðir Ísraelsmanna gegn Hamas-liðum stóðu sem hæst. Hann segist hafa verið stöðvaður þegar hann reyndi að komast inn á svæðið í október og segir ákvörðunina algjörlega óviðunandi. Stjórnvöld segja öryggistástæður liggja að baki niðurstöðu sinni.

Mads Gilbert segir í samtali við BBC að hann hafi aldrei brotið neinar ísraelskar reglur þegar hann dvaldi á Gaza. Hann telur hins vegar að frásagnir hans af ástandi heilbrigðismála þar hafi reitt yfirvöld í Ísrael til reiði.

„Grundvallarástæða slæms heilsufarsástands íbúa Gaza er að sjálfsögðu umsátrið og sprengjuárásirnar,“ segir hann.

Talsmaður ísraelska utanríkisráðuneytisins, Emmanuel Nahshon, lýsir Gilberg sem „Jekyll og Hyde“-fígúru, sem dyljist undir möttli læknis í mannúðarerindum. Hann segir að rannsókn standi yfir á Gilbert og að ákvörðunin verði yfirfarin.

Norska utanríkisráðuneytið hefur sagt að það muni vefengja bannið.

Gilbert var meðal þeirra sem undirrituðu harðort bréf sem birtist í læknatímaritinu Lancet, þar sem aðgerðir Ísraelsmanna á Gaza í sumar voru harðlega gagnrýndar. Hann hefur einnig sagt að aðstæður á Shifa-sjúkrahúsinu hafi verið þær verstu sem hann hefur upplifað.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert