Vildi skipta sköpum

„Þetta er Peter Edw­ard Kassig, banda­rísk­ur rík­is­borg­ari frá land­inu ykk­ar,“ seg­ir böðull með svarta grímu í nýjasta mynd­band­i hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams og bendir í átt að líkamsleifum á jörðinni fyrir framan hann.

Nokkrum klukkustundum eftir að myndbandið birtist í gær staðfesti Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, að það sýndi raunverulega atburði. Í mynd­band­inu er sýnt frá fjölda­af­töku 18 manna sem sagðir eru sýr­lensk­ir stjórn­ar­her­menn en í upphafi blóðbaðsins er afhöfðað lík hins 26 ára Kassig í forgrunni.

BBC segir myndbandið vera það ítarlegasta af öllum þeim myndböndum af morðum sem Ríki íslams hefur sent frá sér hingað til þar sem aftaka hermannanna 18 er sýnd í smáatriðum. Myndbandinu fylgdi einnig viðvör­un sem beint var að Banda­ríkja­mönn­um en þeir búa sig und­ir að tvöfalda herafla sinn í Írak. Ólíkt fyrri myndböndum Ríkis íslams sýndi það ekki bandaríska gíslinn fyrr en eftir að hann hafði verið afhöfðaður og engin hótun um annað morð á föngum frá Vesturlöndum fylgdi.

Áður hafa verið birt myndbönd af morðum á fjórum vestrænum gíslum, hinum bresku Alan Henning og David Haines og bandarísku blaðamönnunum James Foley og Steven Sotloff.

Foreldrar Kassig hafa tjáð sig um voðaverkið en þau segjast vera harmi slegin. Þau segja aftur á móti að með tímanum muni þau fyrirgefa ódæðismönnunum fyrir það sem þeir gerðu.

„Hjörtu okkar eru marin en þau munu jafna sig,“ sögðu þau Ed og Paula Kassig í dag.

Skortur á öllu nema eymd

Abdul-Rahman Kassig, áður Peter Kassig, var 26 ára gamall og fyrrverandi hermaður í Bandaríkjaher. Hann var sendur til Íraks árið 2007 en var leystur frá störfum af heilsufarsástæðum. Vorið 2012 fór hann til Beirút, höfuðborg­ar Líb­anons, þar sem hann kynnti sér mál­efni Sýr­lands og tók áfanga í ar­ab­ísk­um fræðum en þá var hann jafnframt nemi í stjórnmálafræði við Butler-háskólann í Indianapolis. Í tölvupósti til fjölskyldu sinnar og vina sagði hann frá heimsókn sinni í flóttamannabúðir utan við Beirút þar sem hann sagði skort vera á öllu nema eymd.

„Hér í þessu landi hef ég fundið köllun mína,“ skrifaði Kassig. „Ég veit ekki margt, með hverjum deginum sem líður hér hef ég fleiri spurningar og færri svör, en það sem ég veit er að ég hef tækifæri til að gera eitthvað hér, til að taka afstöðu. Til að skipta sköpum.“

Sama ár hlaut Kassig þjálfun í neyðaraðstoð og sjúkraflutningum og setti hjálparsamtökin SERA (Special Emergency Response and Assistance) á laggirnar. Samtökin sérhæfa sig í að aðstoða flóttafólk og þá einkum Sýrlendinga og sjá flóttamannabúðum beggja vegna landamæra Sýrlands fyrir vistum.

Snerist til íslamstrúar

Kassig var rænt af meðlimum Ríkis íslams þann 1. októ­ber í fyrra á sinni leið til Deir Ezzour í aust­ur­hluta Sýr­lands. Kassig hafði aðeins verið í haldi mannræningjanna í fáeina mánuði þegar hann snerist til íslams og segja foreldrar hans, Ed og Paula Kassig, hann hafi gert það af fúsum og frjálsum vilja þegar hann deildi klefa með heittrúuðum sýrlenskum múslima.

Samkvæmt foreldrum Kassig hafði hann tekið þátt í Ramadan-föstunni í júlí og ágúst 2013, stuttu áður en hann var tekinn höndum. Þá hafði hann talað um hversu mikil andleg áhrif fastan hefði haft á hann. Þegar Kassig tók upp íslamska trú tók hann einnig upp nafnið Abdul-Rahman og sögðu samfangar hans hann fylgja trúarskiptunum fast eftir og m.a. biðja fimm sinnum á dag.

„Hann [Kassig] sagði mér frá því hversu mik­il­væg íslamska trú­in væri hon­um, hversu hún hjálpaði hon­um að tak­ast á við aðstæður sín­ar í haldi. Og hann var mjög trúr múslimi. Ég hafði á til­finn­ing­unni að hann væri dá­lítið brot­hætt­ur, en íslamska trú­in virt­ist styrkja hann,“ sagði fyrrverandi samfangi Kassig í viðtali við BBC í síðasta mánuði. Hann sagði einnig að verðirnir sem gættu þeirra hefðu borið meiri virðingu fyrir þeim sem snúist höfðu til íslamskr­ar trú­ar.

Í síðasta mánuði birtu foreldrar Kassig hluta úr bréfi sem hann hafði sent foreldrum sínum þar sem hann lýsti fangavistinni.

„Þeir segja okkur að þið hafið yfirgefið okkur og/eða sé sama um okkur en auðvitað vitum við að þið eruð að gera allt sem í ykkar valdi stendur og meira til,“ skrifaði Kassig. „Engar áhyggjur pabbi, ef ég fell mun ég ekki fara trúandi nokkru öðru en því sem ég veit að er satt. Að þú og mamma elskið mig meira en tunglið og stjörnurnar.“

Færði hina æðstu fórn

Burhan Mousa Agha, sýrlenskur vinur og samstarfsmaður Kassig í Líbanon, lýsti honum sem fyndnum, staðföstum og hugrökkum manni. „Ég vil biðja fjölskyldu hans afsökunar. Mér þykir fyrir því að sonur þeirra dó í heimalandi mínu, við það að reyna að hjálpa,“ sagði Agha í samtali við fréttastofu AFP. „Þeir [Ríki íslams] eru dýr, minna en dýr, þeir standa ekki fyrir íslam. Peter var ekki að berjast við neinn, hann var að kenna fólki að bjarga mannslífum.“

Hadi al-Bahra, útlægur leiðtogi sýrlensku stjórnarandstöðunnar, sagði í yfirlýsingu að Kassig yrði minnst sem hetju. „Kassig færði hina æðstu fórn þar sem hann reyndi að lina þjáningar annarra manneskja langt frá eigin heimili. Óþokkarnir í Isis munu gjalda dýru verði fyrir hina illu glæpi sína,“ sagði al-Bahra.

Bæði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, Francois Hollande, forseti Frakklands, og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafa fordæmt glæpina og í yfirlýsingu til fjölmiðla segja foreldrar hans hjörtu sín brostin.

Kassig við matarúthlutun nálægt landamærum Sýrlands.
Kassig við matarúthlutun nálægt landamærum Sýrlands. AFP
Kassig tók upp íslamska trú í fangelsinu og bað að …
Kassig tók upp íslamska trú í fangelsinu og bað að jafnaði fimm sinnum á dag. AFP
Foreldrar Kassig við bænastund í síðustu viku.
Foreldrar Kassig við bænastund í síðustu viku. AFP
Kassig stofnaði hjálparsamtökin SERA þar sem hann vildi skipta sköpum …
Kassig stofnaði hjálparsamtökin SERA þar sem hann vildi skipta sköpum og hjálpa flóttamönnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert