Lögreglan geti drepið af hvaða ástæðu sem er

Lögreglumaður í St. Louis innsiglar verslun sem mótmælendur lögðu eld …
Lögreglumaður í St. Louis innsiglar verslun sem mótmælendur lögðu eld að í kjölfar þess að tilkynnt var að ekki yrði ákært vegna drápsins á Michael Brown í gær. AFP

Í kjölfar ákvörðunar kviðdóms að lögreglumaðurinn sem skaut óvopnaðan táningspilt í bænum Ferguson í Bandaríkjunum verði ekki ákærður hafa umræður skapast í landinu um að lögreglumenn eigi of auðvelt með að skjóta fólk til bana án þess að þurfa að svara til saka fyrir það.

Jenny A. Durkan, fyrrverandi ríkissaksóknara í Vestur-Washington-ríki, skrifar grein í The Washington Post, þar sem hún segist þekkja það vel hversu erfitt sé að ákæra lögreglumenn. Til þess að hægt sé að gera það þurfi nánast að sanna að lögreglumaður hafi gengið fram í slæmri trú og hreinlega ætlað sér að svipta fólk borgaralegum réttindum sínum. Gríðarlega erfitt sé að sanna slíkt með óyggjandi hætti. Vísbendingar um að lögregluþjónn hafi óttast um líf sitt eða hafi brugðist við í samræmi við þjálfun sína nægi yfirleitt til þess að fella niður mál. 

Hún nefnir sem dæmi þegar lögregluþjónn í Seattle skaut John T. Williams, óvopnaðan tréskurðarmann af frumbyggjaættum, til bana á götu úti árið 2010. Williams var á gangi í miðborg Seattle með verkfæri í höndunum. Þegar hann gekk yfir götu fyrir framan lögreglubíl fór lögregluþjóninn út úr bílnum, elti Williams og skipaði honum að sleppa hnífnum.

Aðeins sjö sekúndum síðar skaut lögregluþjóninn Williams sem hafði ekki sleppt hnífnum. Mál lögregluþjónsins var tekið fyrir af bæði yfirvöldum í borginni og Washington-ríki. Hann bar fyrir sig að honum hafi fundist sér ógnað. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi hins vegar ekki verið í hættu og að Williams, sem reyndist hafa verið heyrnasljór, hafi ekki fengið nægilegan tíma til að láta hnífinn frá sér.

Aftur á móti féllst meirihluti kviðdómenda á að lögregluþjóninn hafi talið að honum stafaði ógn af Williams. Lögregluþjóninn var því ekki ákærður vegna drápsins.

Réttarkerfið vilji ekki láta lögregluna sæta ábyrgð

Bandarísk lög og vinnureglur lögregluembætta gefa lögreglumönnum mikið frelsi til þess að beita ofbeldi sem leiðir til dauða, skrifar Jamelle Bouie, blaðamaður tímaritsins Slate í kjölfar atburðanna í Ferguson. Hæstiréttur hafi skorið úr um að lögreglumenn megi fella fólk við tvennar aðstæður; þegar þeir telja lífi sínu ógnað eða til þess að stöðva glæpamenn á flótta.

Hafi lögreglumaðurinn sem skaut Michael Brown í Ferguson í ágúst talið piltinn vera dæmdan glæpamann eða grunað hann um að hafa framið glæp þá hafi hann mátt skjóta hann samkvæmt núgildandi lögum. Einnig ef hann taldi að líf sitt væri í hættu. Lögregluþjóninn hefur borið að hann hafi grunað Brown og félaga hans um að hafa stolið sígarettum úr stórverlun og að pilturinn hafi ógnað sér.

Í ljósi þessa og þess að saksóknari, sem sé þekktur fyrir að styðja lögreglumenn, hafi ákveðið að mæla ekki með ákæru var það að óhjákvæmilegt að kviðdómur hafi ákveðið að lögregluþjónninn skyldi ekki ákærður.

„Réttarfarskerfið eins og við höfum byggt það upp er einfaldlega ekki í stakk búið, eða einu sinni tilbúið til, að láta lögreglumenn sæta ábyrgð fyrir skotárásir eða önnur brot. Með öðrum orðum, þá er staðreynd málsins sú að lögreglan getur drepið af nánast hvaða ástæðu sem er án þess að þurfa að óttast vera látin svara til saka,“ segir Bouie.

Grein fyrrverandi ríkissaksóknara í Vestur-Washington um Ferguson-málið

Grein Jamelle Bouie í Slate

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert