Bretar kynna hertar hryðjuverkavarnir

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands.
Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands. AFP

Bresk stjórnvöld kynntu í dag frumvarp að lögum sem um varnir gegn hryðjuverkum en samkvæmt því er meðal annars gert ráð fyrir að Bretum, sem grunaðir eru um að hafa barist með hryðjuverkahópum í Sýrlandi eða Írak, verði bannað í allt að tvö ár að snúa aftur til Bretlands nema þeir samþykki að sæta ströngu eftirliti.

Fram kemur í frétt AFP að þetta ákvæði sé meðal þess sem er mest umdeilt í frumvarpinu og hafa gagnrýnendur sagt að það myndi nánast gera umrædda Breta ríkisfangslausa sem væri andstætt alþjóðalögum. frumvarpið veitir innanríkisráðherra Brelands aukin völd. Meðal annars til þess að skilgreina öfgasinnaða orðræðu.

Lögreglan fær einnig heimildir til þess að gera vegabréf fólks upptæk sem grunað er um að ætla úr landi til þess að taka þátt í hrynjuverkastarfsemi. Ennfremur sé gert ráð fyrir auknu eftirliti með grunuðum öfgamönnum og að öfgasinnuðum trúarleiðtogum verði ekki veittur aðgangur að háskólum. 

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, hefur varið frumvarpið á þeim forsendum að Bretar ættu í átökum við háskalega hugmyndafræði hryðjuverkamanna. Ekki væri hægt að gera að engu hryðjuverkaógn í opnu samfélagi en engu að síður yrði að gera allt sem væri hægt til þess að draga úr hættunni á hryðjuverkum í samræmi við sameiginleg gildi samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert