Eldri hjón fundust skotin til bana

AFP

Franska lögreglan rannsakar nú andlát hjóna, 98 ára gamals manns og 86 ára gamallar konu, sem fundust látin á heimili sínu í bænum Fabas í héraðinu  l'Ariège. 

Það var kona sem þrífur heimili hjónanna sem fann þau látin þegar hún kom þangað að þrífa snemma á mánudagsmorgun. Er jafnvel talið að um morð og sjálfsvíg hafi verið að ræða. Maðurinn er bandarískur en konan bresk. 

Samkvæmt frétt The Local hafði maðurinn verið skotinn tvisvar en konan einu sinni í höfuðið.

Lögregla fann .22-kalíbera skammbyssu, sem var í eigu mannsins, í húsinu en þau höfðu búið þar í þrjátíu ár.

Telur lögregla að maðurinn hafi fyrst skotið konu sína en síðan framið sjálfsvíg en hjónin verða krufin í dag. Ekkert bendir til þess að til átaka hafi komið. Eiginmaðurinn á að hafa sagt sjúkraþjálfara sínum nýlega að hann væri búinn að fá nóg af lífinu og ef hann myndi ekki deyja fljótlega þá sæi hann sjálfur um að ljúka þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert