„Skothelt vesti bjargaði lífi hans“

AFP

Norska lögreglan handtók mann í nótt sem skaut á lögreglumann í bænum Vinstra í Guðbrandsdal síðdegis í gær. Samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni bjargaði skothelt vesti lífi lögreglumannsins sem ekki er í lífshættu.

Lögreglustjórinn í Lillehammer, Arne Hammersmark, hélt blaðamannafund á lögreglustöðinni í Lillehammer í morgun vegna málsins en byssumaðurinn var handtekinn klukkan hálf-fimm í morgun að norskum tíma.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins var lögreglan í Guðbrandsdal kölluð út á læknastofu í bænum Vinstra þar sem maður hafði reynt að ráðast á lækni. Sá náði að forða sér, læsa sig inni og hringja í lögreglu, segir Hammersmark.

Þegar lögreglan kom þangað hafði maðurinn forðað sér og hóf lögregla leit að honum. Um það bil klukkustund síðar fannst maðurinn á heimili sínu. Þegar lögregla kom þangað mætti hann þeim vopnaður og skaut á lögreglumanninn af stuttu færi. Lögreglan skaut ekki á móti enda var hún óviðbúin því að maðurinn væri vopnaður.

Að sögn Hammersmark var lögreglumaðurinn fluttur á sjúkrahúsið í Lillehammer og þaðan var hann fluttur á sjúkrahúsið í Ullevål.

Hammersmark segir að þar sem maðurinn var ekki talinn hæfur til að fara með skotvopn þá hafi honum verið gert að skila byssum í sinni eigu og að það hafi hann gert. Ekki er vitað á þessari stundu hvort hann hafi sjálfur átt byssuna sem hann skaut lögreglumanninn með. 

Árásarmaðurinn á við andlega vanheilsu að stríða og verður nú sendur í rannsókn hjá geðlækni. Eftir að hafa skotið á lögreglumanninn náði hann að flýja inn í húsið og lauk umsátrinu ekki fyrr en um hálf-fimm í nótt. 

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert