Hjartnæm samstaða Ástrala á Twitter

Skjáskot af @Kristen_Boschma á Twitter

Gíslatakan sem hófst í Sidney í nótt hefur vakið mikinn ótta í Ástralíu sem og víðar um heim en íbúar Sidney hafa einnig brugðist við henni með því að sýna múslimskum samborgurum sínum samstöðu með hjartnæmum hætti. 

Bys­sumaður sem tók fólk í gísl­ingu á kaffi­húsi í Syd­ney í Ástr­al­íu hefur látið gíslana halda svörtu flaggi með arabísku letri upp við glugga versluninnar. Flaggið ber áletr­un­ina: „Það er eng­inn guð nema Guð, Múhameð er spá­maður Guðs.“ 

Mús­líma­leiðtog­ar í Ástr­al­íu hafa all­ir sem einn for­dæmt árás­ina og hvetja fólk til þess að koma í mosk­ur lands­ins og biðja fyr­ir þeim sem haldið er í gísl­ingu. Margir múslimar virðast þó óttaslegnir við að vera bendlaðir við verknaðinn.

Rachael Jacobs virðist hafa verið sú fyrsta til að vekja athygli á þeim ótta sem múslimar í Ástralíu byggju nú við en hún lýsti því á Facebook hvernig hún sá konu fjarlægja slæðuna (hijab) sem hún bar um höfuð sér. Jacobs bauðst til að ganga með konunni sem faðmaði hana og grét áður en hún fór leiðar sinnar einsömul. Að sögn Buzzfeed er Jacobs innblásturinn að myllumerkinu #illridewithyou þar sem Ástralir bjóðast til að ferðast með fólki íklæddum trúarlegum fatnaði og sýna því þannig samstöðu og veita því vernd. 

Myllumerkið hefur hlotið gríðarlega útbreiðslu og er nú bæði notað af fólki sem býður aðstoð og til að sýna samstöðu gegn voðaverkunum og gegn múslimafóbíu. Myllumerkinu hefur verið tíst yfir 50 þúsund sinnum þegar þetta er skrifað og þykir samstaðan sem það hefur skapað vera ljós í myrkrinu á meðan beðið er frétta af afdrifum gíslanna.

Þá hefur myllumerkið kallað fram sögur eins og þessa hér að neðan. Svo virðist sem Ástralir séu staðráðnir í að láta gíslatökuna ekki rífa þjóðina í sundur heldur, ef eitthvað er, þjappa henni saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert