Jeb Bush kannar forsetaframboð

Jeb Bush, fv. ríkisstjóri Flórída, hyggur á forsetaframboð.
Jeb Bush, fv. ríkisstjóri Flórída, hyggur á forsetaframboð. AFP

Fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, Jeb Bush, ætlar að kanna möguleika sína á að bjóða sig fram til embættis forseta Bandaríkjanna. Færi svo að hann yrði tilnefndur sem forsetaframbjóðandi repúblíkana og næði kjöri yrði hann þriðji maðurinn úr Bush-fjölskyldunni til að vera forseti.

Í stöðuuppfærslum á samfélagsmiðlum sagðist Bush hafa rætt „framtíð þjóðarinnar“ og mögulegt forsetaframboð við fjölskyldu sína yfir þakkargjörðarhátíðina vestra. Eftir þær samræður hafi hann ákveðið að byrja að kanna jarðveginn fyrir framboð. Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum árið 2016.

Í því skyni mun hann stofna samtök sem gera honum kleift að safna fé til framboðsins og til að styrkja aðra frambjóðendur til annarra embætta sem gætu veitt framboði hans stuðning.

Jeb Bush er næstelsti sonur George W.H. Bush sem gegndi embætti forseta Bandaríkjanna frá 1989 til 1993 og yngri bróðir George W. Bush sem var forseti frá 2001 til 2009.

Talið er að yfirlýsing hans um mögulegt framboð muni ýta við öðrum repúblíkönum sem orðaðir hafa verið við framboð, þar á meðal Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey, og Marco Rubio, öldungadeildarþingmanni frá Flórída sem hefur verið mikill stuðningsmaður Bush fram til þessa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert