Frekari hótanir Norður-Kóreu

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Þrátt fyrir að Norður-Kórea hafi staðfastlega neitað aðild að tölvuárásum á kvikmynda- og tæknifyrirtækið Sony ásakar ríkið nú Bandaríkin um að stefna á gagnaðgerðir. Í frétt CNN er vísað í að ríkisfjölmiðillinn KCNA í Norður-Kóreu fjalli nú um að ríkið hafi þegar farið í frekari aðgerðir gegn Bandaríkjanna og að skotmörkin séu öll ríki sem séu tengd bandaríska heimsveldinu og hafi skapað sér óvild Norður-Kóreumanna. 

Bandaríkin „forarþró hryðjuverka“

Segir í frétt KCNA að stærstu aðgerðirnar verði gegn Hvíta húsinu, Pentagon og Bandaríkjunum í heild, sem blaðið kallar „forarþró hryðjuverka.

Á föstudaginn gaf bandaríska alríkislögreglan FBI það út að Norður-Kórea stæði á bak við tölvuárásirnar sem hafa að miklu leyti lamað Sony. Á sunnudaginn kallaði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, árásirnar á Sony netskemmdarstarfsemi, en að það væri ekki stríð.

Þá hafa verið uppi vangaveltur um hvort Norður-Kórea verði aftur sett á lista yfir hryðjuverkalönd, en landið var tekið þaðan árið 2007. Sagði Obama að Bandaríkin hefðu skýra stefnu og viðmið hvað væri ríkisstyrkt hryðjuverk og að slíkar ákvarðanir væru ekki teknar nema að vandlega ígrunduðu máli. Farið verði í það næstu daga að skoða vandlega hvort Norður-Kórea eigi heima á þeim lista eður ei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert