Sektað fyrir skáldaðar umsagnir

AFP

Samkeppniseftirlit Ítalíu saktaði ferðamannavefsíðuna TripAdvisor um 500 þúsund evrur í dag fyrir að hafa ekki varað notendur sína við því að sumar umsagnir á síðunni gætu verið skáldaðar. Vísað var til þess að TripAdvisor legði áherslu á það að umsagnir á síðunni væru áreiðanlegar og lýstu raunverulegri reynslu ferðamanna.

Fram kemur í frétt AFP að samkeppniseftirlitið hafi komist að því að „stundað væri að dreifa misvísandi upplýsingum um uppruna umsagnanna.“ Framferði sem stofnunin hefði bannað. Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á TripAdvisor eftir að stofnuninni bárust kvartanir bæði frá viðskiptavinum og hótelum og veitingatsöðum þess efnis að umsagnakerfið á síðunni væri ósanngjarnt og ógagnsætt þar sem ekki væri varað við skálduðum umsögnum.

TripAdvisor hefur 30 daga til að greiða sektina og 90 daga til þess að skýra fyrir samkeppniseftirlitinu með hvaða hætti vefsíðan hyggst tryggja til framtíðar að ákvaðarnir notenda hennar verði ekki byggðar á upplýsingum sem ekki eigi stoð í raunveruleikanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert