Haldið í kynlífsþrælkun

AFP

Konur og stúlkur úr hópi Jazída, fámenns þjóðarbrots sem skylt er Kúrdum en ekki íslamstrúar hafa verið neyddar í kynlífsþrælkun af liðsmönnum Ríki íslams. Samkvæmt nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna Amnesty International hafa margar þeirra framið sjálfsvíg eða gert tilraun til þess.

Ríki íslams hefur ráðið lofum og lögum í norðurhluta Íraks frá því í júní. Meðal skotmarka þeirra eru Jazídar og aðrir minnihlutahópar og segja mannréttindasamtökin að um þjóðernishreinsanir sé að ræða. Fjölmargir óbreyttir borgarar hafa verið myrtir og aðrir sendir í þrældóm, sem margir líta á sem jafnvel verri kost en dauðann.

Í tilkynningu frá Amnesty kemur fram að margir þeirra sem er haldið í kynlífsþrælkun séu börn, stúlkur 14 og 15 ára og jafnvel yngri.

Margir þeirra sem haldi þeim séu liðsmenn Ríki íslams en einnig stuðningsmenn samtakanna. 19 ára gömul stúlka, Jilan, framdi sjálfsvíg vegna ótta um að vera nauðgað, hefur Amnesty eftir bróður hennar. 

Annarri stúlku sem var haldið á sama stað og Jilan staðfestir frásögn bróður hennar. Hún lýsir því hvernig þær hafi fengið föt afhent sem minntu helst á dansbúninga. Þeir var sagt að fara í bað og fara í fötin. Jilan framdi sjálfsvíg inni á baðherberginu.

„Hún skar sig á púls og hengdi sig. Hún var afar falleg. Ég held að hún hafi vitað að maður myndi taka hana með sér og þess vegna hafi hún drepið sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert