Sjálfstæðissinnar í lykilstöðu

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, gæti verið í lykilstöðu eftir …
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, gæti verið í lykilstöðu eftir þingkosningar á Bretlandi í maí. AFP

Skoskir sjálfstæðissinnar gætu orðið í lykilstöðu í breska þinginu eftir kosningar í vor miðað við niðurstöðu nýrrar skoðunarkönnunar. Þeir ynnu stórsigur í Skotlandi og gætu gert út um vonir Verkamannaflokksins um að hrifsa völdin aftur úr höndum íhaldsmanna.

Könnunin sem gerð var fyrir breska blaðið The Guardian bendir til þess að Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) fengi 43% atkvæða í Skotlandi. Það gríðarleg fylgisaukning því flokkurinn hlaut 20% atkvæða í Skotlandi í þingkosningunum árið 2010. Flokksmenn eru einnig orðnir þrefalt fleiri eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði sem fór fram 18. september.

Verkamannaflokkurinn fengi 16% færri atkvæði en í kosningunum 2010 samkvæmt könnuninni. Þá fékk SNP sex af 59 sætum Skotlands á breska þinginu en Verkamannaflokkurinn 41. Alls eiga 650 þingmenn sæti á breska þinginu. Könnunin bendir til þess að alger umskipti verði á þessum hlutföllum, SNP fengi 45 sæti en Verkamannaflokkurinn aðeins tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert