Komnir á toppinn eftir 19 daga klifur

´
´"Free climbing" er ekkert grín. Skjáskot af Youtube

Þann 27. desember hófu fjallgöngumennirnir Kevin Jorgeson og Tommy Caldwell að klifra upp tind fjallsins El Capitan í Yosemite þjóðgarðinum í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Fjallið er 914 metrar að hæð.

Nú, nítján dögum síðar, eru þeir komnir á toppinn og eru þeir fyrstu fjallgöngumennirnir til þess að klifra klettinn án hjálpartækja. Er það kallað „free climbing“ þegar notast er aðeins við beisli og reipi til öryggis. Hafa mennirnir ekkert til þess að hífa sig upp nema eigið afl og sofið á klettasyllum. Þurftu báðir mennirnir að taka sér hvíldardaga á leiðinni upp á meðan þeir biðu eftir að skinnið á fingrum þeirra greri aftur. Notuðu þeir bæði límband og ofurlím til þess að flýta fyrir því.

Mennirnir lentu einnig báðir í því að detta og var þá aðeins reipið sem bjargaði lífi þeirra. 

Síðustu daga hefur fjöldinn allur af fólki safnast saman í þjóðgarðinum til að fylgjast með afrekinu.

Eric Jorgeson, faðir Kevin, sagði í samtali við fjölmiðla að sonur hans hafi alltaf verið klifrari og það að sjá hann láta drauma sína rætast geri hann stoltan. 

„Hann klifraði allt sem honum datt í hug. Fyrst höfðum við foreldrarnir áhyggjur, en við vöndumst því,“ sagði hann. 

Feðgarnir byrjuðu að prófa sig áfram við klifur við El Capitan þegar Kevin var aðeins fimmtán ára gamall. Varð það að árlegri hefð á afmælisdegi Kevin. 

Í myndbandinu hér að neðan má sjá Caldwell útskýra „free climbing“ og má þá jafnframt sjá El Capitan í öllu sínu veldi.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert