Nýr konungur á fleiri en fimmtíu syni

Salman bin Abdulaziz al Saud, nýr konungur Sádí-Arabíu.
Salman bin Abdulaziz al Saud, nýr konungur Sádí-Arabíu. AFP

Salman bin Abdulaziz al Saud er nýr konungur Sádí-Arabíu eftir fráfall Abdullah, eldri bróður hans. Hann er 79 ára gamall og hefur verið þekktir sem sáttasemjarinn innan konungsfjölskyldunnar. Ólíklegt er talið að hann standi fyrir umbótum í frelsisátt en hann varaði við þeim umbótum sem bróðir hans réðist í.

Abdullah hafði lengi þjáðst af heilsuleysi og hafði Salman, yngri hálfbróðir hans, hlaupið í skarðið fyrir hann undanfarið, að því er kemur fram í umfjöllun breska blaðsins The Guardian um breytingarnar í Sádí-Arabíu. Salman hefur verið krónprins frá árinu 2012 og varnarmálaráðherra landsins frá árinu 2011. Hann hefur meðal annars komið fram fyrir hönd Sádí-Arabíu á alþjóðavettvangi og tekið á móti erlendum gestum vegna veikinda Abdullah.

Heimildir herma að hans eigin heilsa sé ekki sú besta þó að fréttir af því að hann þjáist af elliglöpum eða Parkinson-sjúkdómnum hafi verið bornar til baka. Hann var að minnsta kosti nógu heilsuhraustur til að funda með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í síðustu viku.

Salman varaði við því að umbætur sem Abduallah réðist í, eins og að auka möguleika kvenna til náms, yrðu að gerast hægt og bítandi. Einnig hefur verið haft eftir honum að lýðræði sé ekki mögulegt í konungsveldinu.

Í skjölum bandaríska sendiráðsins í Sádí-Arabíu sem Wikileaks birti á sínum tíma var talað um Salman sem „dómarann“ í erjum innan konungsfjölskyldunnar. Hann hafi einnig aflað sér virðingar fyrir stjórnun sína á höfuðborginni Ryadah sem óx úr 200.000 íbúum í sjö milljónir í stjórnartíð hans.

Nýr krónprins Sádí-Arabíu er hinn 69 ára gamli Muqrin prins. Hann var orrustuþotuflugmaður hjá breska flughernum og var áður yfirmaður leyniþjónustu landsins. Murqin er sonur Abdelaziz Ibn Saud, stofnanda ríkisins, eins og þeir Abdullah og Salman. Hins vegar er talið að hann sé síðasti sonur hans sem sé fær um að stjórna ríkinu. Því megi í framtíðinni búast við átökum innan konungsfjölskyldunnar um hver erfir krúnuna. Þannig er Salman talinn eiga fleiri en fimmtíu syni með fjölda kvenna.

Frétt The Guardian um Salman, konung Sádí-Arabíu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert