3000 börn frelsuð frá hermennsku

280 börn voru frelsuð í morgun.
280 börn voru frelsuð í morgun. Ljósmynd/ UNICEF

Á næstu vikum verða 3000 börn leyst undan hermennsku í Suður-Súdan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF þar sem segir að UNICEF, ásamt samstarfsaðilum sínum hafi tryggt lausn barnanna sem tekin höfðu verið inn í vopnaðan klofningshóp Lýðveldishers Suður-Súdan.

Um er að ræða einn mesta fjölda barna sem sleppt hefur verið í einni aðgerð og var fyrsta hópnum, 280 börnum, sleppt í dag í austurhluta Suður-Súdan. Fleiri hópar munu fylgja í kjölfarið á næstu vikum.  Börnin voru hluti af hernaðarhópnum Kóbrunum og eru á aldrinum 11-17 ára gömul, flest þeirra drengir. Sumir þeirra hafa barist í rúm fjögur ár og enn fleiri hafa aldrei gengið í skóla.  Yfir 12.0000 börn voru tekin inn í vopnaða hópa á síðasta ári til hermennsku í Suður-Súdan.


Stuðningur og hjálp til að aðlagast samfélaginu að nýju

„Þessi börn hafa þurft að framkvæma og horfa upp á hluti sem ekkert barn ætti nokkurn tíman að upplifa,“ segir Jonathan Veitch, talsmaður UNICEF í Suður-Súdan. „Frelsun þúsunda barna krefst stórtækra aðgerða til að tryggja þeim þann stuðning og vernd sem þau þurfa til að endurbyggja líf sitt.”

UNICEF veitir börnunum heilsugæslu og sálrænan stuðning til undirbúa endurkomu þeirra til fjölskyldna sinna. Unnið er að því að hafa uppi á og sameina börnin fjölskyldum sínum. Það er erfitt verkefni því  yfir ein milljón barna hafa hrakist á vergang innan landsins eða flúið átökin yfir til nágrannaríkjanna.

Í frétta tilkynningunni er tekið fram að samfélögum og þorpsbúum í heimkynnum barnanna verður veittur stuðningur og fræðsla til að koma í veg fyrir að þau verði fyrir aðkasti þegar þau koma til baka, en einnig til að draga úr líkum á að þau verði aftur tekin inn í hernaðarhópa.

„Að hjálpa börnunum að aðlagast samfélögum sínum á nýjan leik byggir á því að mæta þörfum þeirra strax, til skemmri og lengri tíma,“ bætir Veitch við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert