Neyðarástand í New York og Boston

Neyðarástandi hefur nú verið lýst yfir í bandarísku ríkjunum New York, New Jersey, Rhode Island, Connecticut, New Hampshire og Massachusetts vegna snjókomu og byls.

Bandaríska veðurstofan hefur kallað bylinn „lamandi og hugsanlega sögulegan“. Um 6.500 flugferðum hefur verið aflýst vegna veðursins og 1.700 jafnframt frestað. 

Ríkisstjóri Massachusetts, Charlie Baker, hefur varað íbúa við og sagt að það yrði „mjög erfitt, jafnvel ómögulegt, að ferðast um“ vegina. Jafnframt hefur verið varað við mögulegu rafmagnsleysi. 

Byrjaði að snjóa á norðausturströndinni í morgun en spáð er að snjódýpt verði um 72 sentímetrar í New York, 60 sentímetrar í Boston og 30 sentímetrar í Fíladelfíu.

Neðanjarðarlestarkerfi New York-borgar hefur verið lokað og flestum almenningsskólum í borginni. Búið er jafnframt að banna alla umferð í borginni nema forgangsakstur neyðaraðila. Svipuð bönn hafa verið sett í Connecticut og New Hampshire. Samkvæmt frétt BBC gæti veðrið haft áhrif á 60 milljónir manna í borginni.

Bylurinn raskar daglegu lífi

Eiga von á 90 cm djúpum snjó

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert