Vopnuð á bekkjarmynd

Kona horfir á tölvuskjá þar sem sjá má mynd af …
Kona horfir á tölvuskjá þar sem sjá má mynd af börnunum stilla sér upp með eftirlíkingar af vopnum. AFP

Myndir af leikskólabörnum haldandi á eftirlíkingum af AK-47 riflum og öðrum vopnum hafa valdið mikilli hneykslan í Rússlandi. Á myndunum sjást börn 5-6 ára m.a. munda sprengjuvörpur og byssur leyniskytta, og sum þeirra bera hjálma eða alpahúfur að hermannastíl.

Myndirnar voru teknar í síðustu viku, í kennslustund um föðurlandsást, „patriotic class“, í leikskóla í Pétursborg, að sögn meðlimar hópsins sem aðstoðaði við að skipuleggja viðburðinn og sá skólanum fyrir vopnaeftirlíkingunum.

„Af hverju mega börn ekki halda á vopnum?“ spurði Yury Dorozhinsky í samtali við AFP, en hann er varaformaður Rauðu stjörnunnar, samtaka sem kenna hersögu og standa fyrir uppsetningum á viðburðum úr seinni heimstyrjöldinni.

„Leyfum þá drengjum að leika með dúkkur,“ bætti hann við.

Hann sagði að kennslustundinn hefði verið haldin í upphitun fyrir rússneska hátíðardaginn Verjendur föðurlandsins, að beiðni stjórnenda leikskólans.

„Það er kjánalegt að kenna börnum þjóðrækni með orðaforða leikmanns. Það væri ekki rétt að segja frá án þess að sýna.“

Dorozhinsky sagði að börnunum hefði ekki verið kennt að nota vopnin og að foreldrar þeirra hefðu verið samþykkir uppátækinu.

Það vakti hins vegar miklar umræður á rússneskum samfélagsmiðlum. Leikskólastjóri umrædds leikskóla neitaði að tjá sig um málið þegar AFP leitaði eftir því. Annar leikskólastjóri í Pétursborg sagði hins vegar algjörlega óásættanlegt að börnin hefðu verið þvinguð til þess að stilla sér upp með vopn í höndunum.

„Þetta er ekki þjóðræknislegt uppeldi,“ sagði Irina Gosteva. „Þetta á ekki heima í leikskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert