Vill að Miliband hafni Skotum

Breska þingið í Lundúnum.
Breska þingið í Lundúnum. mbl.is/Hjörtur

John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segir það vera „skammarlegt“ að forsvarsmenn Verkamannaflokksins hafi ekki útilokað samstarf við flokk skoskra þjóðernissinna, SNP, ef það fari svo að flokkarnir tveir fái meirihluta þingmanna til samans í almennu þingkosningunum, sem fara fram í maí.

Í grein sinni sem birtist í blaðinu Daily Telegraph sagði Major að hætta væri á því að skoskir þjóðernissinnar myndu nýta sér oddaaðstöðu sína og knýja Verkamannaflokkinn til þess að koma fram sínum heitustu stefnumálum, en þar á meðal eru hærri skattar, kjarnorkuafvopnun Bretlands og frelsi Skotlands undan ríkjasambandinu við England.

Major tók fram að hann væri Englendingur sem hefði alltaf dáðst að Skotum, en að hann hefði varað við því frá upphafi að aukin völd til Skotlands myndu einungis leiða af sér aukinn styrk skoskra þjóðernissinna. Hvatti hann Verkamannaflokkinn til þess að nýta flokksþing sitt í Edinborg, höfuðstað Skotlands, sem haldið verður í dag til þess að hafna samstarfi með þeim sem vildu leysa upp Stóra-Bretland.

Myndu gefa eftir með Trident

Þegar einungis um tveir mánuðir eru til kosninga benda flestar kannanir til þess að enginn flokkur muni ná hreinum meirihluta á þinginu. Hins vegar er líklegt að skoskir þjóðernissinnar myndu vera í oddaaðstöðu, þar sem allt stefnir í að þeir verði þriðji stærsti flokkurinn á þingi, þrátt fyrir að vera eingöngu með um 5% fylgi.

Nicola Sturgeon, leiðtogi skoskra þjóðernissinna, sagði í gær að flokkur sinn myndi ekki standa í vegi fyrir því að Bretar uppfærðu kjarnorkuvopnabúr sitt, og að það þyrfti því ekki að standa í vegi fyrir samkomulagi á milli Verkamannaflokksins og þjóðernissinna. Flokkurinn hefur hins vegar þegar útilokað samstarf við Íhaldsflokkinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert