Hver voru fórnarlömbin?

Martyn Matthews ásamt fjölskyldu sinni.
Martyn Matthews ásamt fjölskyldu sinni. AFP

Eins og áður hefur komið fram voru farþegar Germanwings flugvélarinnar sem fórst í frönsku Ölpunum 144 talsins og sex manns voru í áhöfn vélarinnar. Vitað er að 16 farþeganna voru táningar á leið heim úr skólaferðalagi auk þess sem tvö ungabörn voru í vélinni. Yfirvöld segja að enginn hafi lifað slysið af.

Flestir þeirra sem voru um borð voru þýskir eða spænskir en þar að auki voru m.a. einstaklingar frá Bretlandi, Ástralíu og Belgíu. Á síðastliðnum sólarhring hafa smám saman komið fram meiri upplýsingar um hver fórnarlömb flugslyssins voru. Hér er það sem ljóst er um fólkið á þessari stundu samkvæmt umfjöllun BBC.

Greig og Carol frá Ástralíu.

Carol (68) var hjúkrunarkona og Greig (29), sonur hennar, var verkfræðingur. Þau voru í fríi í Evrópu en Greig hafði ætlað sér að leggja stund á enskukennslul í álfunni síðar á árinu. Utanríkisráðuneyti Ástralíu upplýsti um nöfn þeirra og birti jafnframt yfirlýsingu frá fjölskyldu þeirra þar sem fjölmiðlar og aðrir voru beðnir um að virða einkalíf þeirra.

 „Carol var ástrík tveggja barna móðir, trúföst eiginkona manns síns, Dave, og átti þrjá bræður,“ sagði í yfirlýsingunni. Greig hefði orðið þrítugur þann 23. apríl næstkomandi. „Hann var ástríkur sonur Carol og Dave og einstakur bróðir fyrir systur sína Alex. Hann var elskaður af allri fjölskyldu sinni og vinum.“

„Þau voru bæði einstakt og framúrskarandi fólk sem var elskað af mörgum sem þau unnu á móti. Þau munu ávalt vera með okkur í hjörtum okkar, minningum og draumum.“

Marina Bandres Lopez-Belio og Julian Pracz-Bandres frá Spáni/Bretlandi

Marina Bandres Lopez-Belio var í fluginu ásamt sjö mánaða syni sínum, Julian Pracz-Bandres, samkvæmt yfirlýsingu frá eiginmanni hennar, Pawel Pracz.

Hún var spænskur ríkisborgari en hafði búið í Manchester í sjö ár. Hún starfaði við eftirvinnslu í kvikmyndaiðnaðinum. Pracz segir eiginkonu sína og son hafa verið á Spáni til að vera við jarðarför frænda hennar.

„Hún keypti miðana á síðustu stundu og ákvað að snúa fljótt aftur til Manchester þar sem hún vildi snúa aftur í daglega rútínu eins fljótt og auðið var,“ sagði hann.

Paul Andrew Bramley frá Bretlandi

Paul (28) var nemi í hótelstjórnun við Cesar Ritz skólann í Lucerne. Hann hafði nýlokið fyrsta ári sínu við skólann og var í fríi með vinum frá Barcelona áður en hann flaug frá borginni með það fyrir augum að millilenda í Düsseldorf og fljúga þaðan til Bretlands. „Paul var góðhjartaður, umhyggjusamur og ástríkur sonur. Hann var besti sonurinn, hann var heimurinn minn,“ sagði móðir hans, Carol, samkvæmt BBC, um fráfall sonar síns. Utanríkisráðherra Bretlands, Philip Hammond, segir að í það minnsta þrír breskir ríkisborgarar hafi verið í flugvélinni.

Maria Radner og Oleg Bryjak frá Þýskalandi

Radner (34) og Bryjak (54) voru óperusöngvarar sem voru að snúa aftur til heimalands síns eftir að hafa komið fram í óperu í Barselóna. Eiginmaður Radner var með henni í vélinni ásamt ungabarni þeirra hjóna. Radner hafði m.a. komið fram í Metropolitan óperunni í New York sem og í London og víðar um heim.

Bryjak var fæddur í Kasakstan og hafði komið fram í París, Zurich, London, Los Angeles og víðar.

Sextán nemar á táningsaldri og tveir kennarar

16 nemendur  og tveir kennarar úr Joseph-Koenig school í  Haltern, Þýskalandi, voru meðal fórnarlambanna. Hópurinn hafði verið í skiptinámsferð í skóla í Llinars de Valles nálægt Barselóna. Spænskir nemendur úr skólanum höfðu heimsótt hópinn í fyrra.

Bæjarstjóri Haltern, Bodo Kllimpel sagði slysið það versta sem hægt væri að ímynda sér, á blaðamannafundi. Flestir nemendanna voru 16 ára stúlkur. Aðrir nemendur og foreldrar komu saman í skólanum á þriðjudag og á miðvikudag var formleg minningarstund haldin.

Lara Beer (14) segir bestu vinkonu sína, Paulu, hafa verið um borð. „Ég var að bíða eftir lestinni sem Paula átti að vera á en lestin kom og Paula var ekki í henni, svo ég fór aftur heim. Það var þá sem foreldrar mínir sögðu mér að Paula væri dáin,“ sagði Beer.

Annar nemandi tjáði BBC að stúlkurnar í hópnum hefðu verið 14 og strákarnir tveir. Vinkona nemandans var í hópnum og sagði hann suma ferðalanganna hafa skrifað til vina sinna að þeir gætu ekki beðið eftir að komast heim.

Kennsla var felld niður í dag en nemendur voru hvattir til að koma og tala við aðra nemendur og ráðgjafa.

Christian Driessens frá Belgíu

Christian Driessens (59) ára er sagður vera eina fórnarlamb flugslyssins frá Belgíu.

Er hann sagður hafa verið fæddur og alinn upp í Kongó og að hann hafi flust til Mons í Belgíu sem námsmaður. Þar hafi hann hitt stúlku frá Katalóníu og flust til Spánar. Mun hann hafa búið í Palleja nálægt Barselóna.

Eyal Baum frá Ísrael

Utanríkisráðuneyti Ísrael segir hinn 39 ára Eyal Baum, sem búsettur var í Barselóna, hafa verið meðal fórnarlambanna. Hann min hafa verið á leið til Düsseldorf vegna vinnu.

Maria del Pilar Tejada og Luis Eduardo Medrano frá Kólumbíu

Maria del Pilar Tejada (33) og Luis Eduardo Medrano (36) voru meðal fórnarlambanna að sögn utanríkisráðuneytis Kólumbíu. Tejada var við nám í háskóla í Köln. Hún hafði ferðast til Barselóna til að hitta maka sinn sem einnig er frá Kólumbíu. Medrano var arkitekt á ferðalagi um Evrópu. Vinur hans lýsti honum fyrir kólumbískum fjölmiðlum sem íþróttamannslegum, heilbrigðum, tillitssömum, námsfúsum og með frábært skopskyn

Sebastian Gabriel Greco og Gabriela Luján Maumus frá Argentínu

Argentínska parið Sebastian Gabriel Greco (28) og Gabriela Luján Maumus (28) voru meðal farþega að sögn argentínskra fjölmiðla. Maumus var bassaleikari í rokkhljómsveitinni Asalto al Parque Zoológico (APZOO) í La Boca hverfinu í Buenos Aires á sunnudaginn.

Daniela Ayón, Dora Isela Salas og Carles Milla frá Mexíkó

Mexíkósk kona sem hafði búið í mörg ár í Barselóna var meðal farþega en hún var á ferð til Köln þar sem hún hugðist sækja ráðstefnu tengda matvælaiðnaðinum ásamt nokkrum öðrum farþegum frá Katalóníu. Ríkisstjórn Mexíkó hefur staðfest að tveir aðrir mexíkóskir ríkisborgarar hafi verið um borð.

Mexíkóskir fjölmiðlar segja fórnarlömbin vera Daniela Ayón, Dora Isela Salas og Carles Milla en nöfnin hafa ekki verið saðfest af yfirvöldum.

Milad Eslami og Hossein Jawadi frá Íran

Milad og Hossein voru fjölmiðlamenn sem fjölluðu um leiki landsliðs íran í knattspyrnu í Austurríki. Þeir ferðuðust til Spánar til að fara á El Clasico, leik Barselóna gegn Real Madrid. Þeir höfðu verið kyrrsettir á flugvellinum í Barselóna áður en þeir fóru um borð í flugvél Germanwings þar sem þeir áttu ekki flugmiða báðar leiðir.

 Yvonne Selke og Emily Selke frá Bandaríkjunum

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest að þrír Bandaríkjamenn hafi verið um borð í vélinni, þar á meðal Yvonne Selke og uppkomin dóttir hennar, Emily Selke.

Martyn Matthews frá Bretlandi.

Martyn (50) var tveggja barna faðir og vann sem yfirmaður við gæðastjórnun. Eiginkona Martyn heitir Sharon og börn hans tvö heita Jade og Nathan.

Óperusöngvarinn Oleg Bryjak.
Óperusöngvarinn Oleg Bryjak. AFP
Paul Andrew Bramley.
Paul Andrew Bramley. AFP
Brak vélarinnar dreifðist víða.
Brak vélarinnar dreifðist víða. AFP
Nemendur syrgja við Joseph-Koenig skólann.
Nemendur syrgja við Joseph-Koenig skólann. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert