Vildi enga Afríkubúa á veitingastaðinn

Kínverska veitingastaðnum hefur verið lokað.
Kínverska veitingastaðnum hefur verið lokað. Skjáskot af Daily Nation

Eigandi kínversks veitingastaðar í Naíróbí, höfuðborg Kenía, hefur verið handtekinn í kjölfar uppnáms sem varð er hann setti þá reglu að banna alla Afríkubúa á staðnum á kvöldin.

Eigandinn var þó ekki handtekinn beint vegna þessa heldur fyrir að vera ekki með gilt leyfi til veitingarekstrar. Það var þó ekki fyrr en fjölmiðlar höfðu ítrekað birt fréttir af „reglunni“ hans en þar kom m.a. fram að blaðamönnum sem starfa í Kenía hafi verið vísað frá veitingastaðnum þar sem þeir voru afrískir.

Stærsta dagblað Kenía, Daily Nation, birti frétt þess efnis á mánudag. Þar var haft eftir dyraverði staðarins að „tími Afríkubúa væri liðinn“ en blaðamennirnir komu að staðnum kl. 7 um kvöld. Hann sagði að á kvöldin mættu heimamenn aðeins koma inn á staðinn í fylgd með Kínverjum, Evrópubúum eða Indverjum.

Hins vegar var bent á að tveir stjórnmálamenn hefðu fengið inngöngu, þó að þeir væru afrískir í húð og hár.

Keníamenn brugðust hart við og á samfélagsmiðlum var eigandi staðarins harðlega gagnrýndur.

Staðnum, sem heitir einfaldlega Kínverski veitingastaðurinn, hefur nú verið lokað. Í frétt Daily Nation segir að eigandinn hafi ekki haft vínveitingaleyfi og önnur leyfi til að reka veitingastað.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert