Ráðist á heimasíðu kjörnefndarinnar

Sérstakur skanni les fingraför nígerískrar konu áður en hún kaus …
Sérstakur skanni les fingraför nígerískrar konu áður en hún kaus á kjörstað í dag. AFP

Kjörnefnd forseta- og þingkosninganna sem standa yfir í Nígeríu í dag hefur greint frá því að hakkað hafi verið inn á vefsíðu nefndarinnar fyrr í dag. „Ráðist var á vefsíðu INEC (Kjörnefndarinnar) af hökkurum í morgun en við erum að reyna að koma henni upp aftur,“ sagði talsmaður nefndarinnar, Nick Dazang í samtali við fréttastofu AFP. Lagði hann áherslu á að árás tölvuhakkarana hafi ekki áhrif á talningu atkvæða.

Hefur INEC orðið fyrir talsverðri gagnrýni síðustu daga vegna undirbúnings nefndarinnar á kosningunni. Hefur fingrafaraskanni, sem notaður er til þess að skrá kjósendur, orðið fyrir gagnrýni en notkun hans á áð útiloka kosningasvindl. 

Hafa kjósendur í Nígeríu kvartað í dag yfir seinagangi á kjörstöðum vegna fingrafaraskannans. Til að mynda tók það forseta landsins, Goodluck Jonathan fimmtíu mínútur að kjósa vegna vandræða við skráningu. 

Samkvæmt frétt AFP var það Nigerian Cyber Army eða Nígeríski netherinn sem réðst á síðu nefndarinnar. Hún er nú aftur komin í gagnið. 

Fyrri frétt mbl.is:

Tók forsetann 50 mínútur að kjósa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert