Árásir halda áfram í Jemen

Arabaríki, með Sádí-Arabíu í fararbroddi, héldu áfram loftárásum sínum á Jemen í nótt, þriðja daginn í röð. Sádí-Arabar hafa lofað því að gera hvað sem þarf til þess að tryggja sess Abedrabbo Mansour Hadi, forseta Jemens, en hann hefur nú leitað hælis í Sádí-Arabíu.

Sádí-Arabar sökuðu Írana í leiðinni um að hafa ýtt undir uppreisn svonefndra Hútí-liða, en þeir eru sjíar líkt og Íranar.

Tugir óbreyttra borgara hafa látið lífið í loftárásunum.

Tíu ríki hafa tekið þátt í árásunum á Hútí-liða og segja fjölmiðlar í Sádí-Arabíu að Persaflóaríkin Kúveit, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Katar og Bahrain hafi öll lagt til flugvélar. Þá mun sádí-arabíski herinn vera í viðbragsstöðu við landamæri Jemen með um 150 þúsund manns.

Loftárásirnar í nótt beindust einkum að skotmörkum sem eru talin hafa hernaðarlegt gildi. Þau eru öll á valdi Hútí-liða og hersveita.

Íranar hafa brugðist illa við loftárásunum og sagt þær vera brot á fullveldi Jemens, en Bandaríkin hafa stutt við aðgerðir Sádí-Araba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert