Lubitz átti von á barni

Andreas Lubitz.
Andreas Lubitz. AFP

Andreas Lubitz, sem talinn er hafa grandað farþegaþotu flugfélagsins Germanwings í frönsku Ölpunum á þriðjudaginn, átti von á barni. Þetta kemur fram í The Daily Telegraph sem vitnar í þýska sunnudagsblaðið Bild am Sonntag.

Þar kemur fram að ónefnd kærasta Lubitz eigi von á barni og hafi tilkynnt nemendum sínum það fyrir nokkrum vikum. Á hún að hafa verið á leiðinni að staðnum þar sem þotan hrapaði þegar fregnir bárust af því að Lubitz væri grunaður um að hafa borið ábyrgð á brotlendingunni.

Samkvæmt frétt The Daily Telegraph bjó Lubitz áamt kærustu sinni í íbúð í einu af dýrustu hverfum þýsku borgarinnar Düsseldorf. Samkvæmt þýska dagblaðinu Der Spiegel var parið trúlofað þó svo að það hafi ekki verið staðfest af yfirvöldum. 

Er því haldið fram að hún kenni ensku og stærðfræði í ríkisreknum skóla í Düsseldorf. 

Í gær birti þýska dagblaðið Bild frétt þar sem rætt er við konu sem sögð er fyrr­ver­andi kærasta Lubitz. Lýs­ir hún því að hann hafi verið veik­ur á geði. 

Í viðtalinu kemur fram að þegar hún heyrði um flug­slysið og að rann­sak­end­ur slyss­ins teldu Lubitz hafa grandað vél­inni vís­vit­andi hafi hún allt í einu munað það sem Lubitz sagði eitt sinn við hana.

„Það var ein setn­ing sem skaust upp í huga mér: Einn dag mun ég gera eitt­hvað sem breyt­ir öllu og í kjöl­farið munu all­ir þekkja nafnið mitt og muna eft­ir mér,“ á Lubitz að hafa sagt við kon­una.

„Ég skildi aldrei hvað hann átti við en nú skil ég það,“ bæt­ir kon­an við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert