Leit hætt að líkamsleifum

AFP

Frönsk yfirvöld tilkynntu í kvöld að leit væri hætt að líkamsleifum þeirra sem létu lífið þegar þýskri farþegaþotu flugfélagsins Germanwings var grandað í frönsku Ölpunuum í seinasta mánuði.

Tekist hafði að finna líkamsleifar flestra og þar á meðal flugmannsins, Lubitz, sem er talinn hafa grandað vélinni. Enn er hins vegar unnið að því að greina þau DNA-sýni sem fundist hafa á slysstað.

Rannsókn málsins hefur gengið hægt vegna erfiðra aðstæðna í fjalllendinu og eins vegna þess hversu víða brak þotunnar og líkamsleifar þeirra sem voru um borð hefur dreifst.

Alls létust 150 manns þegar farþegaþotan skall á fjallgarðinum á 700 km/klst þriðjudaginn 24. mars. Fyrri flugriti þotunnar leiddi í ljós að Lubitz var einn í flugstjórnarklefanum þegar vélin fórst og er talið að hann hafi læst flugstjóra hennar úti þegar hann hafði brugðið sér á salernið.

Seinni flugritinn fannst í fyrradag og fullyrtu franskir saksóknarar í gær að hann sýndi fram á að Lubitz hefði lækkað flug þotunnar af ásettu ráði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert