Stökk út um glugga og lifði af

Stúlkur sem lifðu árásina af hugga hvor aðra. 148 létust, …
Stúlkur sem lifðu árásina af hugga hvor aðra. 148 létust, flestir nemendur við háskólann. AFP

Þriggja daga þjóðarsorg er hafin í Kenía vegna árásar hryðjuverkasamtakanna al-Shabab á Garissa-háskólann. 148 létust og 79 særðust. Flestir hinna látnu voru nemendur við skólann.

Forseti landsins, Uhuru Kenyatta, hefur heitið því að refsa þeim sem bera ábyrgð á voðaverkunum „af eins mikilli hörku og mögulegt er“.

Búið er að bera kennsl á 54 þeirra sem létust. Ættingjar hafa streymt að líkhúsi í höfuðborginni Naíróbí þar sem þeir þurfa að bera kennsl á ástvini sína.

Um 600 nemendur og 50 starfsmenn skólans lifðu árásina af. Búið er að breyta Nyayo-þjóðarleikvanginum í höfuðborginni Naíróbí í neyðarstöð þar sem ástvinir þeirra sem létust og þeir sem lifðu árásina af hafa komið saman. 

„Þó ég sé innilega þakklát fyrir að vera á lífi þá vildi ég að vinir mínir væru hér því ég vildi að þeir gætu átt hér stund með foreldrum sínum, ég missti mjög marga vini mína,“ segir Lavenda Mutesi, átján ára, en henni tókst að sleppa undan árásarmönnunum með því að stökkva út um glugga á heimavist sinni.

Fjórir árásarmenn hafa verið felldir og fimm eru í haldi lögreglu, grunaðir um aðild að voðaverkunum. Einn þeirra er öryggisvörður við háskólann.

Kristnir jafnt sem múslímar hafa fordæmt árásina. Talið er að Frans páfi muni fjalla um árásina í páskaávarpi sínu í dag.

Í Keníabúar hafa mótmælt árásinni á götum úti og hafna því að hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafi tekist að kljúfa þjóðina. 

Frétt BBC.

Nemendur sem lifðu árásina af komu í rútum að Nyayo-leikvanginum …
Nemendur sem lifðu árásina af komu í rútum að Nyayo-leikvanginum sem búið er að breyta í fjöldahjálparmiðstöð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka