Fundu handtösku ungu konunnar

Karen Buckley.
Karen Buckley. mbl.is

Leitað er á landi og úr lofti í og við Glasgow í Skotlandi að vísbendingum um hvarf 24 ára konu,  Karen Buckley, sem ekkert hefur spurst til frá því á sunnudag. Handtaska konunnar fannst í Dawsholm-garðinum í borginni.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að síðast hafi spurst til konunnar snemma að morgni sunnudags er hún yfirgaf hús manns sem hún hafði hitt kvöldið áður. Lögreglan segir að maðurinn sé ekki, enn sem komið er, grunaður um aðild að hvarfi hennar. Maðurinn hefur sagt lögreglunni að Buckley hafi farið frá honum um kl. 4 um nóttina. 

Buckley er írsk og háskólanemi. Talið er að hún hafi ætlað að ganga heim í íbúð sína en þangað skilaði hún sér aldrei um nóttina.

Í frétt Sky kemur ennfremur fram að Buckley hafi kvöldið áður en hún hvarf hitti vini sína á næturklúbbi í Glasgow. Vinir hennar segja að hún hafi um kl. 1 um nóttina sagst ætla á klósettið en hafi ekki komið aftur. Hún hafi skilið jakkann sinn eftir á staðnum.

Á öryggismyndavélum sést er Buckley yfirgefur skemmtistaðinn ásamt karlmanni. Sky hefur eftir lögreglumanni að samkvæmt upplýsingum mannsins hafi þau farið saman í íbúð hans um nóttina.

Lögreglumaðurinn segir ennfremur að ekki sé talið að maðurinn hafi þvingað hana til að yfirgefa staðinn. „Það gæti samt sem áður eitthvað hafa komið fyrir hana síðar,“ segir lögreglumaðurinn John Kerr.

Meðal þess sem lögreglan rannsakar nú er hvort að bílstjóri í gráum bíl, sem sást á ferð um nóttina í nágrenninu þaðan sem Buckley hvarf, finnist og geti gefið upplýsingar.

Frétt mbl.is: Umfangsmikil leit að ungri konu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert