Miðflokkur til valda á ný

Timo Soini, formaður Finnaflokksins, Alexander Stubb, formaður Sameiningarflokksins og Juha …
Timo Soini, formaður Finnaflokksins, Alexander Stubb, formaður Sameiningarflokksins og Juha Sipilä formaður Miðflokksins. AFP

Nýjustu tölur herma að Miðflokkurinn, undir forsæti milljarðarmæringsins Juha Sipilä, hafi fengið 47 af 200 þingsætum í þingkosningum sem fram fóru í Finnlandi í dag. Kjörstöðum var lokað klukkan 19 að staðartíma, klukkan 17 að íslenskum tíma. Þetta er í samræmi við skoðanakannanir og allt bendir til breytinga í finnskum stjórnmálum.

Jafnaðarmannaflokkurinn er með 38 þingsæti, Sameiningarflokkurinn, sem er hægriflokkur undir forystu Alexanders Stubb, forsætisráðherra fráfarandi ríkisstjórnar, er með 37 þingsæti og Finnaflokkurinn, sem er þjóðernissinnaður miðju- eða hægriflokkur, hét áður Sannir Finnar, er með 33 þingsæti.

Stubb hefur játað sig sigraðan og óskað Miðflokknum til hamingju með kosningasigurinn, samkvæmt frétt finnska ríkisútvarpsins, YLE.

Í grein sem Bogi Þór Arason skrifaði í Morgunblaðið í liðinni viku kemur fram að Miðflokkurinn galt afhroð í þingkosningunum fyrir fjórum árum þegar hann fékk 15,8% atkvæðanna, minna fylgi en nokkru sinni fyrr frá síðari heimsstyrjöldinni.

Flokkurinn hafði þá verið við völd frá árinu 2003 og ósigurinn í kosningunum var rakinn til fjármálahneykslis, sem margir þingmenn flokksins voru bendlaðir við, efnahagssamdráttar vegna fjármálakreppu og aukins fylgis Sannra Finna.

Fylgi Miðflokksins tók að aukast þegar Juha Sipilä var kjörinn formaður hans árið 2012 og flokkurinn hefur verið stærstur í skoðanakönnunum í tæp tvö ár. Sipilä hefur verið þingmaður í aðeins eitt kjörtímabil og vinsældir hans eru einkum raktar til velgengni hans í rekstri fyrirtækja. Hann rak meðal annars finnska tæknifyrirtækið Solitra og varð milljónamæringur þegar hann seldi það bandaríska fyrirtækinu American ADC Telecommunications árið 1996.

Finnaflokkurinn í stjórn?

Miðflokkurinn hefur verið í stjórnarandstöðu frá síðustu þingkosningum. Fjórir flokkar eiga aðild að fráfarandi ríkisstjórn, þ.e. Sameiningarflokkurinn, Jafnaðarmannaflokkurinn, Sænski þjóðarflokkurinn og Kristilegir demókratar. Vinstribandalagið gekk úr ríkisstjórninni fyrir rúmu ári vegna óánægju með niðurskurð á útgjöldum til velferðarmála. Græningjar sögðu sig síðan úr stjórninni í september eftir að hún heimilaði að reist yrði kjarnorkuver.

Ríkisstjórnin naut stuðnings 102 þingmanna af 200 í lok kjörtímabilsins en 118 þingmenn studdu hana þegar hún var mynduð fyrir fjórum árum undir forystu Jyrki Katainen, þáverandi leiðtoga Sameiningarflokksins. Katainen tilkynnti fyrir ári að hann hygðist láta af embætti og Alexander Stubb tók við af honum í júní. Stubb hefur ekki tekist að auka fylgi Sameiningarflokksins og sannfæra Finna um að hann sé best til þess fallinn að rétta efnahaginn við.

Jafnaðarmannaflokkurinn er einnig undir forystu nýs leiðtoga, Antti Rinne, fyrrverandi verkalýðsforingja sem var kjörinn formaður flokksins í maí í fyrra. Rinne er nú fjármálaráðherra og hefur lofað aðgerðum af hálfu ríkisins til að fjölga störfum.

Sannir Finnar vildu ekki eiga aðild að fráfarandi ríkisstjórn vegna andstöðu við efnahagsaðstoð Evrópusambandsins við Portúgal og fleiri evrulönd til að bjarga evrunni. Formaður Finnaflokksins, Timo Soini, segir hann nú vilja taka þátt í myndun næstu ríkisstjórnar og Juha Sipilä hefur léð máls á samstarfi við flokkinn eftir þingkosningarnar.

Gagnrýnd fyrir úrræðaleysi

Fráfarandi samsteypustjórn í Finnlandi hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki gert nægar ráðstafanir til að rétta efnahag landsins við og jafnvel forsætisráðherrann Alexander Stubb hefur tekið undir gagnrýnina. Stöðnun ríkti í efnahagnum í fyrra eftir tveggja ára kreppu sem er aðallega rakin til samdráttar í skógarhöggi og framleiðslu rafeindatækja, einkum vegna erfiðleika Nokia. Atvinnuleysið mælist nú 9,2% og hefur ekki verið meira frá árinu 2003. Miðflokkurinn hefur lofað að skapa 200.000 ný störf á tíu árum en hagfræðingar segja að erfitt verði að standa við það loforð.
Formaður Miðflokksins, Juha Sipilä, verður væntanlega næsti forsætisráðherra Finnlands.
Formaður Miðflokksins, Juha Sipilä, verður væntanlega næsti forsætisráðherra Finnlands. AFP
Formaður jafnaðarmanna, Antti Rinne
Formaður jafnaðarmanna, Antti Rinne AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert