Dæmd í lífstíðarfangelsi

Megan Huntsman, 40 ára kona í Utah í Bandaríkjunum, hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða sex nýfædd börn sín. Huntsman var handtekin í fyrra, eftir að líkamsleifar barnanna fundust í kössum í bílskúr þar sem hún bjó áður.

Huntsman hlaut hámarksrefsingu, 30 ár til lífstíðarfangelsi, en ólíklegt þykir að henni verði nokkurn tímann sleppt.

Huntsman gekkst við brotunum í febrúar sl. Að sögn lögreglu átti hún börnin á árunum 1996 til 2006. Hún kæfði þau eða kyrkti strax eftir fæðingu. Þá setti hún þau í plastpoka og pakkaði þeim ofan í kassa á heimili sínu í Pleasent Grove, um 75 km frá Salt Lake City.

Huntsman skildi kassana eftir þegar hún flutti, en það var eiginmaður hennar Darren West sem fann líkin. Huntsman og West voru skilin að borði og sæng á þeim tíma. Líkamsleifar sjöunda barnsins fundust einnig í bílskúrnum, en talið er að það hafi fæðst andvana.

West var faðir barnanna en hann og Huntsman eiga þrjú önnur börn saman. Samkvæmt lögreglu var Huntsman fíkniefnaneytandi og „vildi ekki eiga börnin“ sem hún myrti.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert