Geta ekki lent í grunnbúðunum

Þyrlur hafa ekki getað lent í grunnbúðum Everest í dag vegna veðurs en mikið snjóar á svæðinu. Talið er að um eitt þúsund manns séu á fjallinu, bæði fjallgöngumenn víða af úr heiminum og nepalskir sjerpar sem aðstoða göngufólkið.

Eyðilegging af völdum skjálftans í höfuðborginni Katmandú er gífurleg. Enn er unnið að því að grafa fólk úr rústum bygginga. Tala látinna er komin yfir eitt þúsund manns og er talið að hún eigi enn eftir að hækka. Upptök skjálftans, sem mældist 7,9 stig, voru um 80 kílómetrum norðvestur af höfuðborginni. Skjálftinn varð á 15 kílómetra dýpi.

Fjallgöngufólk sem statt er í grunnbúðunum hefur beðið um aðstoð, meðal annars í gegnum Twitter. Þar eru að minnsta kosti tíu látnir og mun fleiri mikið slasaðir. Snjóflóðið sem féll á milli Khumbu-ísfallsins og grunnbúðanna olli mikilli eyðileggingu í búðunum.

Læknar sem staddir eru í grunnbúðunum aðstoða þá slösuðu og reyna að bjarga lífum, líkt og læknirinn og fjallagarpurinn Nima Namgyal Sherpa sagði á Facebook-síðu sinni í dag. „Allir læknarnir hér eru að bera sitt besta til að hlúa að og bjarga lífum,“ skrifaði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert