Fann limlest lík barns í garðinum

Britany Placencia fann líkamsleifarnar í garðinum heima hjá sér.
Britany Placencia fann líkamsleifarnar í garðinum heima hjá sér. Skjáskot af Youtube

Níu ára gömul bandarísk stúlka fann líkamsleifar ungbarns þegar hún lék sér í garðinum fyrir utan heimili sitt um helgina. Stúlkan, sem heitir Britany Placencia og býr í Westmont í Los Angeles, var að leika sér við hundinn sinn á laugardag þegar hún fann hluta líksins, sem hafði verið limlest.

„Hundurinn var að þefa af bolta, svo ég ætlaði að fara og ná í boltann,“ sagði hún í samtali við CBS fréttastofuna. „Ég sá fót og hljóp til mömmu minnar og sagði henni frá.“

Móðir stúlkunnar hélt að um kjúklingalegg væri að ræða, áður en hún áttaði sig á því að fóturinn hafði tilheyrt ungbarni. Höfuð barnsins fannst stuttu síðar við girðingu í garðinum.

Rannsóknarlögreglumenn frá lögreglunni í Los Angeles segja líkamsleifarnar hafa verið af eins til þriggja daga gömlu barni. „Barnið lítur út fyrir að hafa verið limlest,“ sagði í tilkynningu. „Mikilvægir hlutar líksins hafa ekki enn fundist.“

Lögregla hefur biðlað til fólks á svæðinu að leita í görðum sínum og ruslatunnum, þar sem morðinginn gæti hafa hent restinni af líkamsleifunum. Þá segjast rannsakendur einnig vilja tala við allar konur sem voru nýlega ófrískar en eru það ekki lengur, en hafa börn sín samt ekki hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert