Nýgift hjón bíða enn í búðum 1

Björgunarþyrla sækir slasaðan fjallgöngumann á Everest-fjall.
Björgunarþyrla sækir slasaðan fjallgöngumann á Everest-fjall. AFP

Björgunarlið sem vinna að því að sækja göngufólk á Everest keppa við tímann. Mikilvægt er að ná fólkinu niður af fjallinu áður en það klárar matar- og vatnsbirgðir sínar. Talið er að enn sé nokkur fjöldi fólks í búðum 1 (e. Camp 1) eða ofar í fjallinu. Búðirnar eru í 6.050 metra hæð.

Fólkið kemst ekki sjálft niður í grunnbúðirnar vegna snjóflóðs sem féll í kjölfar skjálftans á laugardag. Hægt var að bjarga mörgum í dag og í gær en þyrla getur aðeins flutt tvo í einu. Búið er að flytja bæði Ingólf Axelsson og Vilborgu Örnu Gissurardóttur niður í grunnbúðirnar. Fólkið sem er eftir dvelur því þriðju nóttina í röð í fjallinu eftir skjálftann.

Þrjú frosin lík vafin í svefnpoka

Nýgift hjón eru meðal þeirra sem enn eru í búðum 1 og hafa þau bæði tíst á Twitter og bloggað um lífsreynsluna. Hjónin Alex Schneider og Sam Chappatte eru bæði 28 ára og koma frá Bretlandi.

Þau voru nýkomin upp í búðirnar þegar flóðið féll. „Kröftugur skjálfti skók Everest. Grunnbúðirnar eru verulega skemmdar. Hópurinn okkar er fastur í búðum 1. Biðjið fyrir öllum,“ skrifuðu þau skömmu eftir skjálftann. 

Göngufólkið hefur lýst grunnbúðunum sem óþekkjanlegum. Sean Wisedale frá Suður-Afríku bloggaði og lýsti ástandinu. „Háværar, kröftugar þyrlu flugu yfir tjaldið og vaknaði ég við það í morgun. Ég gekk að þyrlunni... Verið var að lyfta þremur frosnum líkum sem vafin höfðu verið í svefnpoka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert