Tugir flóttamanna drukknuðu

AFP

Tugir flóttamanna drukknuðu á flótta yfir Miðjarðarhaf í vikunni er bátur þeirra sökk suður af Sikiley. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Save the Children hjálparsamtökunum.

Í frétt BBC kemur fram að fólkið hafi drukknað þegar björgunarskip var á leiðinni til bjargar en komið var með þá sem lifðu skipskaðann af til hafnar í Catania í dag. Að minnsta kosti 1750 hafa drukknað á flótta yfir Miðjarðarhaf í ár, sem eru tuttugu sinnum fleiri en á sama tímabili í fyrra er 96 létust.

Varðskipið Týr siglir nú til Sikileyjar með 328 flóttamenn sem áhöfnin bjargaði af tveimur bátum norður af Líbíu. Um var að ræða 236 manns á trébát og hinsvegar 92 á litlum gúmmíbát. Tæplega 70 konur og börn voru í hópnum. Aðgerðir tókust vel og er varðskipið væntanlegt til hafnar síðar í dag, segir á vef Landhelgisgæslunnar.

AFP fréttastofan hefur eftir Giovanna di Benedetto hjá Save the Children að um 40 hafi drukknað þegar bátur með 137 um borð sökk úti fyrir Sikiley. Um gúmmíbát var að ræða sem annað hvort sprakk eða varð loftlaus. 

AFP
Börn sem áhöfn Týs bjargaði
Börn sem áhöfn Týs bjargaði Landhelgisgæslan
Flóttamönnum komið til bjargar
Flóttamönnum komið til bjargar Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert