Fabius mætir í Moskvu

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands.
Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands. AFP

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, ætlar að vera viðstaddur hátíðarhöld í Moskvu, höfuðborg Rússlands, á laugardaginn vegna sigurs Sovétríkjanna á nasistum fyrir 70 árum síðan. Flest vestræn ríki ætla ekki að senda fulltrúa sína til hátíðarhaldanna vegna framgöngu rússneskra stjórnvalda í garð Úkraínumanna.

Fram kemur í frétt AFP að Fabius ætli hins vegar ekki að vera viðstaddur mikla hersýningu sem fram mun fara á Rauða torginu í Moskvu. „Ég verð ekki viðstaddur hersýninguna en ég hyggst leggja blómsveig og síðan fara til skrifstofu forsetans,“ er haft eftir ráðherranum. Að sögn Fabius getur Francois Hollanda Frakklandsforseti ekki mætt til Moskvu vegna heimsóknar á Kúbu.

Forseti Tékklands, Milos Zeman, mun einnig vera viðstaddur hátíðarhöldin í Mosku sem og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kemur til Moskvu á sunnudaginn til þess að leggja blómsveig ásamt Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að minnismerki um óþekkta hermanninn. Í kjölfarið fer síðan fram blaðamannafundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert