Hryðjuverkamenn meðal flóttamanna

Ráðgjafi ríkisstjórnar Líbíu segir í samtali við BBC að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams smygli sínu fólki til Evrópu. AbdulBasitHaroun segir að smyglarar feli hryðjuverkamennina meðal flóttafólks sem kemur til Evrópu yfir Miðjarðarhaf.

Hann byggir þessar ásakanir sínar á samtölum sem hann hefur átt við eigendur báta í Norður-Afríku á svæðum em eru undir stjórn Ríkis íslams.

Hann segir að Ríki íslams leyfi þeim að halda starfsemi sinni áfram, það er að smygla fólki ólöglega til Evrópu, gegn því að fá helming tekna þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að þegar hafi um 60 þúsund manns komið yfir Miðjarðarhaf það sem af er ári. Yfir 1800 eru taldir af en bátarnir eru oft drekkhlaðnir og vart sjófærir. 

Í viðtali við BBC segir Haroun að Ríki íslams noti bátana fyrir fólk sem þau vilja senda til Evrópu og að lögregla í Evrópu hafi ekki hugmynd um hverjir séu hryðjuverkamenn og hverjir venjulegir flóttamenn.

Skæruliðarnir halda sig oft frá flóttafólkinu um borð og óttast ekkert á leiðinni, þeir séu staðfastir liðsmenn Ríkis íslams. Hann segist sannfærður um að hryðjuverkamenn áformi frekari hryðjuverk í Evrópu. 

Fyrr á árinu varaði Frontex, landamæraeftirlit Evrópu, við því að mögulegt væri að skæruliðar nýttu sér báta flóttafólks til þess að komast inn í Evrópu. Ríki íslams ræður yfir stórum svæðum í Sýrlandi og Írak og  hafa samtökin verið mjög virk í Líbíu undanfarna mánuði þar sem tekist hefur verið á um völdin síðan Muammar Gaddafí var steypt af stóli. Eins lýsti Ríki íslams yfir ábyrgð á hryðjuverkaárás í höfuðborg Túnis sem kostaði 22 lífið. Stór hluti flóttafólks á Miðjarðarhafi kemur frá Líbíu þar sem það er að flýja skálmöldina í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert