Níu féllu í skotbardaga í Texas

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. AFP

Níu manns létu lífið í skotbardaga í borginni Waco í Texas í Bandaríkjunum í kvöld. Nokkrir eru særðir, að sögn lögreglunnar þar í borg.

Fregnir herma að til átaka hafi komið á milli þriggja mótorhjólagengja með fyrrgreindum afleiðingum. Skothríðin átti sér stað á bílastæðaplaninu fyrir framan veitingastaðinn Twin Peaks og hvetur lögreglan fólk til að halda sig þar fjarri, að því er fram kemur í frétt CNN.

Lögreglumenn voru á vettvangi þegar skothríðin hófst en þeir sluppu ómeiddir, að því er talið er.

Uppfært kl. 21:47: Átökin hófust inni á veitingastaðnum en færðust fljótlega út á bílaplanið fyrir framan. Fjölmörgum vopnum var beitt, svo sem keðjum, hnífum, kylfum og byssum. Átján manns eru særðir.

Frétt NBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert