Grafa upp lík fyrrverandi forseta

Hafist var handa í gær við að grafa upp líkamsleifar Thomas Sankara, fyrrverandi forseta Burkina Faso sem var myrtur í valdaráni árið 1987. Líkamsleifar tólf annarra verða einnig grafnar upp. 

Sankara var vinsæll herforingi sem tók við völdum í landinu árið 1983 í kjölfar valdaráns. Hann var við stjórn í landinu er nafni hinnar fyrrum frönsku nýlendu var breytt úr Upper Volta í Burkina Faso.

Hann var grafinn í flýti í október árið 1987 í kjölfar valdaráns þar sem Blaise Compaore komst til valda. Sá var við völd í landinu allt þar til uppreisn var gerð á síaðsta ári.

Compaore neitaði alla sína valdatíð að rannsaka morðið á Sankara. Í mars á þessu ári samþykktu stjórnvöld í Burkina Faso að líkamsleifar hans yrðu grafnar upp og á þær bornar kennsl með formlegum hætti.

Fjölskylda Sankara hefur ávallt efast um að Sankara hafi verið grafinn í kirkjugarði í Dagnoen-héraði eins og yfirvöld héldu fram á sínum tíma. En í gær hófust aðgerðir í garðinum.

„Þeir eru farnir að grafa en það gæti tekið langan tíma,“ sagði Mariam Gouem, dóttir eins lífvarðar Sankara en faðir hennar var einnig myrtur í valdaráninu. „Þetta er erfitt fyrir okkur. Þegar pabbi dó var systir mín aðeins sex mánaða gömul.“

Þrír læknar, tveir frá Burkina Faso og einn frá Frakklandi, stjórna uppgreftrinum. 

„Við viljum sannleikann!“ hrópar fólk sem safnast hefur saman við kirkjugarðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert