Tilraun til að fella Blatter

Handtökur á nokkrum stjórnendum alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA eru tilraun bandarískra yfirvalda til að koma í veg fyrir endurkjör Sepp Blatter, forseta sambandsins. Þetta segir Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sem sakar Bandaríkjamenn um að reyna að láta lögsögu sína ná til annarra ríkja.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Sviss réðust í umfangsmiklar aðgerðir gegn FIFA í gær. Sjö stjórnendur sambandsins voru handteknir, grunaðir um aðild að fjársvikum, og húsleit var gerð í höfuðstöðvum þess í Zürich. Stjórnendur FIFA eru sakaðir um að hafa þegið tugi milljóna dollara í mútur undanfarna áratugi, þar á meðal í tengslum við það að Rússlandi og Katar voru veitt heimsmeistaramótin árið 2018 og 2022.

„Þetta er klár tilraun til að reyna að koma í veg fyrir endurkjör Blatter sem forseta FIFA og er alvarlegt brot á þeim grunnforsendum sem alþjóðlegar stofnanir starfa á,“ sagði Pútín í sjónvarpsviðtali í dag.

Rússneski forsetinn sagði jafnframt að Blatter hafi áður staðið af sér þrýsting sem hann hafi verið beittur um að „banna“ heimsmeistaramótið í Rússlandi.

Forsetakosningar FIFA eiga að fara fram í Zürich á morgun þar sem Blatter sækist eftir endurkjöri. Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur hins vegar lýst því yfir að það vilji að kosningunum verði frestað í ljósi atburðanna í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert