Leiðréttu ekki fréttaflutning

Malala Yousafzai er yngsti handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hún hefur verið …
Malala Yousafzai er yngsti handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hún hefur verið ötull talsmaður fyrir því að stúlkur hljóti menntun. AFP

Yfirvöld í Pakistan staðfestu í dag að aðeins tveir menn hefðu verið dæmdir fyrir morðtilraunina á hendur Malölu Yousafzai. Athygli vekur að fréttir um að tíu hefðu verið dæmdir voru ekki leiðréttar af stjórnvöldum.

Yousafzai var skotinn í höfuðið í október 2012, þar sem hún sat í skólarútu. Í apríl sl. sögðu lögmenn í Mingora, höfuðborg Swat, að hinir tíu ákærðu hefðu allir verið dæmdir í 25 ára fangelsi. Tilkynningin vakti mikla jákvæða athygli um allan heim.

Heimildarmaður innan hersins, sem ræddi við Guardian, sagði á þeim tíma að fregnirnar væru ekki réttar og að tveir hefðu verið dæmdir, ekki átta. Embættismenn segja nú að lögmennirnir sem báru út hinar röngu fregnir hefðu ekki verið í dómsal og hefðu aðeins dregið þá ályktun að allir sakborninganna hefðu hlotið dóm.

Það vekur athygli að hvorki herinn né stjórnvöld í landinu gerðu tilraun til að leiðrétta rangfærsluna. Herinn á stóran þátt í að tryggja öryggi í Swat, heimahéraði Yousafzai, eftir að ráðist var í aðgerðir gegn Talibönum á svæðinu.

Embættismaður innan hersins sagði í dag að það væri mat hersins að næg sönnunargögn hefðu legið fyrir til að dæma alla ákærðu, en að langvarandi veikleikar í réttarkerfinu hefðu leitt til annarar niðurstöðu.

Hann sagði að vitnum hefði verið ógnað og að dómstóllinn hefði vísað mörgum ákæruliðanna frá. Heimildarmaðurinn sagði frétt Daily Mail um að mönnunum hefði verið sleppt ekki rétta og sagði þá enn í haldi. Þeir yrðu dregnir fyrir dóm í annað sinn.

Malala Yousafzai varð í október sl. yngsti handhafi friðarverðlauna Nóbels.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert