Lét Donald Trump heyra það

Nicolas Maduro, forseti Venesúela.
Nicolas Maduro, forseti Venesúela. AFP

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur gagnrýnt milljarðamæringinn og forsetaframbjóðandann Donald Trump harðlega fyrir ummæli hans þess efnis að mexíkóskum innflytjendum, sem vilja setjast að í Bandaríkjunum, fylgi glæpir og fíkniefni.

„Ég hafna með öllu fullyrðingum Donald Trumps. Þrjótur. Þjófur. Hvernig vogarðu þér að ráðskast með bræður okkar? Landið þitt hefur nú þegar ofsótt og arðrænt þá nógu mikið,“ sagði sósíalíski leiðtoginn í sjónvarpsviðtali í Venesúela í gær.

„Venesúela brýnir raust sína til varnar þeim Mexíkóum sem þessi áhrifamaður, þessi stórlax, hefur móðgað,“ sagði Maduro.

Trump lét ummælin falla þegar hann tilkynnti um forsetaframboð sitt fyrr í vikunni. Sækist hann eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum árið 2016. Á sínum fyrsta framboðsfundi í Trump-turninum í New York gerði hann gys að andstæðingum sínum og lét Mexíkóa heyra það.

„Þegar mexíkósk stjórnvöld senda fólk sitt, þá senda þau ekki sitt besta fólk,“ sagði hann. „Þau senda hingað fólk sem glímir við fjölmörg vandamál … Það kemur með fíkniefni. Það kemur með glæpi. Þetta eru nauðgarar,“ sagði Trump.

Miguel Angel Osorio Chong, innanríkisráðherra Mexíkó, sagði ummælin „fáranleg“ og sakaði Trump um að reyna að kynda undir deilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert