„Þjóðarflokkurinn sigurvegari kosninganna“

Lars Løkke Rasmus­sen er á leið inn og Helle Thorn­ing-Schmidt …
Lars Løkke Rasmus­sen er á leið inn og Helle Thorn­ing-Schmidt er á leið út. AFP

„Úrslitin eru um margt söguleg því nú breytast valdahlutföll hjá borgaraflokkunum. Það er skýr blokkapólitík eins og maður sér á Norðurlöndunum, margir flokkar en þeir skipta sér fyrirfram upp í hægri og vinstri, borgaraflokkar og vinstri, bláa og rauða. Það sem gerðist í gær var að danski þjóðarflokkurinn varð stærsti borgaraflokkurinn og kom það svolítið á óvart og er flokkurinn lykilstöðu eftir kosningarnar,“ segir Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, í samtali við mbl.is um úrslit þingkosninga í Danmörku. 

Bláa blokkin vann sigur í kosningunum, fékk 90 þingsæti en rauða blokkin 85 og Helle Thorn­ing-Schmidt, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, gekk á fund Mar­grét­ar Þór­hild­ar Dana­drottn­ing­ar og baðst lausn­ar fyr­ir sig og ráðuneyti sitt. Lars Løkke Rasmus­sen verður næsti forsætisráðherra þrátt fyrir að flokkur hans, Venstre, hafi tapað 13 þingsætum í kosningunum og hafi nú 34 þingmenn. 

Danski þjóðarflokkurinn sigurvegari kosninganna

„Það var ákveðið fyrirfram hverjir ættu að vera forsætisráðherraefni blokkanna þannig að kjósendur vissu að hverju þeir gengu hvað það varðar. Síðan gerist það að forsætisráðherraefni borgaraflokkanna missir frekar mikið fylgi og danski þjóðarflokkurinn tekur allt það fylgir og bætir meiru við sig. Hann er því hinn stóri sigurvegari í þessum kosningum,“ segir Birgir.

Hann segir að það hafi verið sérstakt að fylgjast með umræðunni í gær út frá íslensku sjónarmiði. „Þrátt fyrir að það væri ljóst snemma kvölds hvað myndi gerast þá var mikil umræða um hvort danski þjóðarflokkurinn fari í ríkisstjórn eða ekki. Hvort þeir verði með ráðherra eða ekki, það er ekki frágengið. Það er svolítið sérstakt. Menn tala eins og það sé ekki aðalatriði þó það sé alveg ljóst að Danski þjóðarflokkurinn hlýtur að hafa mikil áhrif á þá stefnu sem fylgt verður.“

Dregið úr ríkisútgjöldum og skattar lækkaðir?

Danski þjóðarflokkurinn hefur verið umdeildur og hafa skoðanir þeirra á innflytjenda- og flóttamannamálum þótt öfgafullar. „Þeir eru orðnir stærsti borgaraflokkurinn. Hinir flokkarnir gerðu honum mikinn greiða með því að tala mikið um innflytjendur og flóttamenn. Þar hefur þjóðarflokkurinn skýra stefnu en þeir höfðu sig ekki mikið í frammi. Þeirra kosningabarátta var mjög hógvær þannig lagað miðað við það sem hefur oft áður verið.“

Venstre, flokkur Lars Løkke Rasmus­sen verðandi forsætisráðherra, vill ekki auka ríkisútgjöld og íhaldsmenn og frjálslynda bandalagið vill draga úr ríkisútgjöldum og lækka skatta. Þjóðarflokkurinn hefur fært sig inn á miðju í velferðarmálum og vill auka útgjöld þar. „Þetta er eitthvað sem flokkarnir eiga eftir að semja um,“ segir Birgir.

„Blásið út miðað við önnur mál“

Birgir segir umræðu um innflytjendamál hafa verið nokkuð sérstaka í Danmörku. „Flóttamenn og innflytjendur eru ekkert fleiri í Danmörku en annars staðar. Þetta hefur náð mikilli athygli og þjóðarflokkurinn hefur fengið aðra með sér í því að ræða þessi mál þannig að mikilvægi þessara mála fyrir dönsk stjórnmál hefur verið blásið út miðað við önnur mál. Það má kannski segja eins og núna að efnahagsástandið í Danmörku er frekar gott og það er ekki mikið deilt um efnahagsmál og var ekki gert í kosningabaráttunni. Menn þurfa að finna sér eitthvað annað til að rífast um. Þetta er svolítið sérstakt með Danmörku hvað menn hafa verið uppteknir af þessu. Þó að vissulega sé þetta vaxandi umræðuefni í Evrópu allri.“

Kristian Thulesen Dahl, formaður Danska þjóðarflokksins, var ánægður á kosninganótt.
Kristian Thulesen Dahl, formaður Danska þjóðarflokksins, var ánægður á kosninganótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert