Ráðast örlög Grikkja í dag?

Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri ESB.
Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóri ESB. AFP

Örlög Grikklands og evrunnar munu að miklu leyti ráðast í dag að sögn Pierre Moscovici, efnahagsmálastjóra Evrópusambandsins. Ummælin féllu í morgun en neyðarfundur fer fram í dag um skuldavanda landsins þar sem gera á úrslitatilraun til þess að finna lausn á honum. Grískir ráðamenn hafa fundað með alþjóðlegum lánadrottnum sínum undanfarna mánuði um miklar skuldir landsins en til þessa án teljandi árangurs.

Moscovici sagði við fjölmiðla í morgun að hann teldi að hægt yrði að landa samkomulagi um skuldastöðu Grikklands í dag til þess að koma í veg fyrir að landið yrði greiðsluþoti að bráð. Síðustu tillögur grískra ráðamanna væru í rétta átt og gætu orðið grundvöllur samkomulags. grískir ráðamenn hafi loksins áttað sig á því að þeir yrðu að koma fram með heildstæðar tillögur að lausn málsins. Franski fjármálaráðherrann, Michel Sapin, lét hliðstæð orð falla í morgun.

Grikkir þurfa að standa skil á háum afborgunum um næstu mánaðarmót en fjármunirnir til þess eru ekki til. Fyrir vikið verða að koma til lánafyrirgreiðslur frá alþjóðlegum lánadrottnum Grikklands til þess að standa skil á þeim. Að öðrum kosti mun Grikkland lenda í greiðsluþroti sem gæti orðið til þess að landið yrði að yfirgefa evrusvæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert